Ísland í fremstu röð í veiðiferðamennsku

Jóhann Davíð flytur fyrirlestur í Svíþjóð um íslenska fyrirkomulagið. Sænska …
Jóhann Davíð flytur fyrirlestur í Svíþjóð um íslenska fyrirkomulagið. Sænska kerfið er gerólíkt því íslenska og grundvallast á rétti allra til að mega stunda veiðar. Ljósmynd/JDS

„Ísland er í fremstu röð, þegar kemur að veiðiferðamennsku. Við erum jafnvel númer eitt í heiminum,“ segir Jóhann Davíð Snorrason, framkvæmdastjóri Kolskeggs ehf sem leigir Eystri – Rangá, Affallið og Þverá.

Sænskur háskóli leitaði til Jóhanns Davíðs, árið 2018 og bað hann um að flytja fyrirlestur um íslenska kerfið þegar kemur að veiðiferðamennsku. Í framhaldi af því óskaði sænska landbúnaðaráðuneytið eftir því að hann flytti fyrirlesturinn á Fiskeforum, ári síðar. Þessi árlega ráðstefna sænskra hagsmunaðila er undir verndarvæng sænska konungsins og setti hann ráðstefnuna.

Á aðalfundi Landssambands veiðifélaga sem haldinn var nýlega flutti Jóhann Davíð þennan fyrirlestur staðfærðan.

„Í Svíþjóð er fyrirkomulag á stangveiði með allt öðrum hætti en við þekkjum. Ríkið á árnar og vötnin og því er í raun öllum heimilt að veiða allsstaðar. Þetta leiðir af sér að þar í landi er nánast útilokað að búa til vöru eins og við erum að selja hér á Íslandi. Í fyrirlestrinum var ég að fjalla um að íslensku lögin sem ná aftur til Grágásar eru grundvöllurinn að því að við getum haldið úti veiðiferðamennsku á Íslandi. Við erum í raun og veru að selja þetta fágæti. Ég finn hjá okkar erlendu viðskiptavinum að það er ekki síður sú upplifun að geta verið einn einhvers staðar. Vita að þú átt einhverja veiðistaði einn. Það er enginn nálægt þér. Við erum að fá hingað menn sem eru í mjög annasömum störfum. Bara það að geta verið einir og andað að sér fersku lofti er mjög stór hluti aðdráttaraflsins sem Ísland hefur. Í mörgum tilvikum vegur þessi þáttur afskaplega þungt.“

Framkvæmdastjóri Kolskeggs, er Jóhann Davíð Snorrason. Félagið leigir Eystri - …
Framkvæmdastjóri Kolskeggs, er Jóhann Davíð Snorrason. Félagið leigir Eystri - Rangá og fleiri laxveiðiár á Suðurlandi. Hann telur Ísland í fremstu röðu í veiðiferðamennsku. Ljósmynd/Aðsend

Fékkstu einhver viðbrögð frá Svíunum?

„Þeim fannst þetta mjög áhugavert og það er vinna búin að vera í gangi í landbúnaðarráðuneytinu til að leita leiða að byggja upp veiðiferðamennsku hjá þeim. Þetta er hins vegar mjög erfitt því lögin eru með þeim hætti að réttur almennings er mjög sterkur. Fleiri norðurlandanna eru með svipað kerfi og viðgengst í Svíþjóð. Í Noregi er þetta blandað. Þar finnast ár í einkaeigu eins og við þekkjum. Ef við horfum til Bandaríkjanna sem maður hefði talið land einkaframtaksins þá er það ekki á þessu sviði. Þar á ríkið veiðiréttinn. Þetta leiðir af sér að við marga veiðistaði eru nánast stöðumælar og það er ómögulegt að reikna út hversu margir verða við þennan hyl í dag eða á morgun. Þess vegna er erfitt að ætla sér að byggja upp veiðiferðamennsku við slíkar aðstæður.“

Jóhann Davíð segir að margir íslenskir veiðimenn telji þetta eins í öðrum löndum og átti sig ekki á hvað sérstaðan hér er mikil. Rússland segir hann vera gott dæmi um þar sem menn hafa verið að breyta kerfinu. Áður voru ár og veiðisvæði í eigu ríkisins en einkavæðingarstefna þar hefur líka náð til laxveiðiáa. Hann nefnir Kólaána. Fyrir neðan laxveiðisvæðið sem er selt sérstaklega, er almenningur þar sem öllum stendur til boða að veiða.

„Þegar veiðifélag er um hvert veiðisvæði, eða á, þá heldur það mun betur utan um alla stjórnun á veiðum og þar undir falla fiskverndarsjónarmið og fleira. Lykillinn að íslenska kerfinu er einmitt veiðifélagsskyldan. Annars væri þetta eitt kraðak og hver og einn landeigandi gæti verið að stjórna veiðum fyrir sínum landi,“ sagði Jóhann Davíð í samtali við Sporðaköst.

Kvöldverður undirbúinn í veiðihúsinu við Eystri - Rangá. Stór hlutir …
Kvöldverður undirbúinn í veiðihúsinu við Eystri - Rangá. Stór hlutir aðdráttaraflsins sem Ísland hefur er að veiðimenn eru einir og hafa svæði og hylji út af fyrir sig. Ljósmynd/Kolskeggur

Í fyrirlestri sínum hjá Landssambandi veiðifélaga lagði hann meiri áherslu á hversu víða tekjur að veiðiferðamennsku væru að dreifast. „Ég var að horfa meira á þessi heildrænu áhrif. Þetta er ekki bara arður til bænda. Þetta skiptir líka máli upp á störf og arð í héraði. Hótel og leiðsögumenn og annað starfsfólk. Afleiddu áhrifin eru svo mikil. Þá er ég ekki að gera lítið úr mikilvægi arðgreiðslna til landeigenda. Sumir bændur ættu erfitt með að komast af ef þeir fengju ekki arð af ánni sinni.“

Jóhann Davíð sem er bæði ferðamálafræðingur og með meistaragráðu í markaðsfræðum birti tölur frá Hagfræðistofnun máli sínu til stuðnings. Veiðileyfi á Íslandi voru seld fyrir 4.9 milljarða króna árið 2018. Árið 2004 nam þessi sama tala rúmum milljarði. Væntanlega hefur þessi tala hækkað umtalsvert síðustu fimm ár.

Treystir þú þér til að meta hversu framalega við Íslendingar stöndum í veiðiferðamennsku?

„Við erum í allra fremstu röð. Ég held að við séum nánast númer eitt í dag. En auðvitað getum við alltaf gert betur. Ég er á þeirri skoðun að við ættum að kenna þennan hluta í ferðamálafræði í háskólanum. Þetta er mikilvægur þáttur ferðamennsku á Íslandi. Að sama skapi er lítið um rannsóknir í þessum geira. Á þessum sviðum getum við gert betur,“ sagði Jóhann Davíð að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert