Mikil bjartsýni ríkir meðal umsjónaraðila Hofsár í Vopnafirði um laxveiðina þar í sumar og raunar næstu sumur. Auðmaðurinn og laxaverndunarsinninn Jim Ratcliffe er nýbúinn að lýsa áhyggjum sínum af framtíð laxins og telur hann Ísland vera eitt síðasta vígi þessa silfraða lónbúa.
Miðað við tölur og túlkun á þeim frá Bjarna Jónssyni fiskifræðingi varðandi seiðabúskap og útgöngu seiða þá eru Hofsárbændur ekkert að skafa utan af því. Menn eru mjög bjartsýnir. Bjarni flutti erindi á aðalfundi Veiðifélags Hofsár og afhenti mönnum skýrslu með sínum niðurstöðum. Þar má meðal annars lesa: „Heilt á litið er ástand seiðastofna einstaklega gott um mest allt vatnasvæðið. Góð ganga laxaseiða hefur verið af flestum árköflum vorið 2022 og var einnig vorið áður. Ef vel vorar þetta árið gætum við séð einn stærsta gönguseiðaárgang í Hofsá í langan tíma,“ skrifar Bjarni Jónsson fiskifræðingur.
Veiði í Hofsá dróst verulega saman eftir mikil flóð sem urðu þar 2013. Síðari ár hefur Hofsá verið í mikilli framför með undatekningu sumarið 2021. Í fyrra veiddust 1.211 laxar í Hofsá og er það besta veiði frá árinu 2007.
Veiðin í fyrra var að langstærstum hluta borin uppi af smálaxi og ætti það að lofa góðu varðandi tveggja ára laxinn sem er fyrr á ferðinni. Miðað við seiðaútgöngu ætti smálaxinn því líka að geta orðið sterkur.
Gísli Ásgeirsson framkvæmastjóri Six River Iceland var á akstri á NA – horninu þegar Sporðaköst náðu sambandi við hann. „Já. Þetta eru ánægjulegar fréttir. Það kom spurning á fundinum til Bjarna fiskifræðings hvort að það væri raunhæft að Hofsá færi aftur í tvö þúsund laxa. Hann taldi það líklegt á næstu árum,“ upplýsti Gísli. Sjálfur segist hann sannfærður um að hún fari í 1.300 til 1.500 laxa í sumar.
Þú ert brattur.
Sveinn Björnsson, kallaður Denni greip þá fram í. „Sæll. Það er öruggt að hún fer í fimmtán hundruð. Þú ert sko að tala í hátalarann.“ Denni sem starfað hefur sem leiðsögumaður árum saman í Vopnafirði er yfirleitt frekar jarðbundinn þegar kemur að tölum á óveiddum löxum.
Jón Magnús Sigurðarson, yfirleiðsögumaður og formaður veiðifélags Hofsár hló þegar fullyrðingar Gísla og Denna voru bornar undir hann. „Sem leiðsögumaður vill maður nú hafa væntingastjórnunina í lagi. Ég verð ánægður ef hún yfir þúsund laxa og tel líklegra að stóra sumarið komi að ári. En maður veit aldrei,“ sagði Jón Magnús.
Töluverð breyting verður á í Hofsá í sumar. Stöngum er fækkað úr sjö í sex og má segja að það sé eðlilegur stangafjöldi í þriggja daga holli. Þá nær hver stöng að veiða öll svæði en í sjö stanga skiptingu missti hver stöng eitt svæði.
Leiðsögumannaskylda verður tekin upp og eingöngu verður heimilt að veiða á flotlínu og þyngdar flugur bannaðar.
Jón Magnús segist sannfærður um að fiskræktaraðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarin ár séu farnar að skila sér vel. Þar er um að ræða hrognagröft og að passa upp á að allar kvíslar séu opnar og þar hafa verið grafin seiði og með því hefur búsvæði Hofsár verið stækkað.
Lokaorð í samantekt Bjarna Jónssonar fiskifræðings eru þessi: „Það verður ekki annað sagt en að útlitið er bjart í Hofsá og að fiskræktaraðgerðir séu farnar að skila sér einstaklega vel.“
Gísli Ásgeirsson sagði að þó svo að útlitið væri gott þá eru svona spár ofurlítið eins og veðurspáin. „Það spáir sól en svo seinnipartinn kemur þokan.“
Það verður í það minnsta áhugavert að fylgjast með veiðinni í Hofsá í sumar í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að ofan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |