Þegar maímánuður gengur í garð opna sífellt fleiri veiðisvæði. Heiðarvatn skammt ofan Víkur í Mýrdal tók á móti fyrstu gestum um mánaðamótin. Óhætt er að segja að opnunin hafi verið mjög áhugaverð.
Enn eru snjósleikjur í drögum og giljum en vorið er samt að gera sig gildandi. Heiðarvatn er eitt magnaðasta veiðivatn landsins og þar geta menn sett í bleikju, staðbundinn urriða, sjóbirting og lax gengur líka upp í vatnið úr Vatnsá.
Guðlaugur Helgason hefur verið ráðinn staðarhaldari í Heiðardal og var hann mættur til að aðstoða fyrstu veiðimennina um síðustu helgi. „Þetta var bara þvílíka veislan,“ sagði Gulli í samtali við Sporðaköst, aðspurður um hvernig þetta hefði svo byrjað.
„Það var þarna breskur afbragðs veiðimaður, Simon sem var með okkur að opna vatnið. Hann landaði rúmlega níutíu sentímetra sjóbirtingi. Hann hefur aldrei landað svona stórum birtingi. Þetta var alveg svaðalega flott dýr. Þetta var sko ekki leiðinlegur dagur. Ég landaði svo einum sem var líka níutíu sentímetrar. Sá fiskur var orðinn alveg silfraður og var bara klár í að fara niður.“
Hann sagði að enn væri mikið af birtingi í vatninu enda verið kalt upp á síðkastið.
Á hvað fengu þið þessa stórfiska?
„Já. Það var nú svolítið merkilegt. Hann fékk sinn á litla púpu með bláu tagli og silfurkúlu. Hún var mikið þyngd. Ég tók hann aftur á móti á ólívugrænan Nobbler með einfaldri þyngdri kúlu. Það er svo magnað hvað þetta var á ólíkar flugur.“
Gulli sagði að hann og Simon hefðu verið stöðugt í fiski, en stóru fiskana fengu þeir á tanganum út af staðsetningunni þar sem bústaður Keflvíkinganna var á sínum tíma. Kunnugir átta sig á hvar sá tangi er. Og Gulli fékk sinn inni í víkinni skammt frá tanganum.
„Bleikjan er vöknuð og byrjuð að hreyfa sig. Við lönduðum nokkrum og misstum og þetta voru góðar bleikjur. Svo var náttúrulega magnað að við vorum að fá mikið af urriða og hann er bara spikfeitur. Það voru fiskar í mjög góðu ástandi og hann hefur haft það gott í vetur,“ sagði staðarhaldarinn aðspurður um aðrar tegundir.
Hann segist ekki hafa séð svona mikið líf í opnun í mörg ár, þegar kemur að bleikjunni. „Við vorum að fá þessar bleikjur ekki svo langt frá þar sem Vatnsáin rennur úr vatninu og það er ekki hefðbundinn staður fyrir hana. Þarna er grýtt í botni og var kallað Rif og Suðublettur hér áður fyrr.
Það er vandfundinn sá núlifandi Íslendingur sem þekkir vatnið betur en Gulli þegar kemur að stangveiði. Hann er hættur í föstu vinnunni sinni og ætlar að einbeita sér að staðarhaldarahlutverkinu og annast og skipuleggja leiðsögn fyrir veiðimenn í vatninu og ekki síður í Vatnsá og loks Kerlingadalsá þegar líður á sumarið.
Vatnsá og Heiðarvatn hafa ekki farið varhluta af stækkandi sjóbirtingi síðari ár. Þannig gengu þrír sjóbirtingar í gegnum teljarann í Vatnsá í október í fyrra, sem mældust yfir 110 sentímetrar og var sá stærsti 116. Þessir miklu fiskar voru á leið upp í Heiðarvatn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |