Miklar sveiflur hafa verið í vatnsmagni Þjórsár síðustu vikur og hún erfið fyrir veiðimenn sem hafa reynt fyrir sér þar í vorveiði. Helga Gísladóttir er manna duglegust við að kasta fyrir sjóbirting þar. Hún uppskar svo ríkulega í gær þegar hún setti í stóran birting.
„Þetta er sá stærsti sem ég hef fengið til þessa. Og já ég er að veiða í Þjórsá en hún er búin að vera mjög erfið í vor. Sveiflast úr þrjú hundruð rúmmetrum og upp í þúsund á nokkrum og svo niður aftur. Núna er hins vegar bara mjög fín. Flottur litur á henni og gott vatn. Kjöraðstæður myndi ég segja,“ sagði Helga í samtali við Sporðaköst í dag.
Hún setti í stóran fisk í gær og missti hann. „Hann var mjög stór og ég sá hann vel. Svo setti ég í annan og veit ekki hvort þetta var sá sami. En hann virkaði mjög svipaður. Ég sá að þetta var líka svona stór fiskur og var fegin að ég var með tvíhenduna en ekki einhenduna. Ég landaði honum og hann mældist sléttir níutíu sentímetrar,“ sagði ánægð veiðikona.
Helga er öflug á samfélagmiðlum og þegar hún veiðir fiska í stærri kantinum kallar hún þá gjarnan tröllafiska og það er óhætt að segja að þessi standi algerlega undir því heiti. Sporðaköstum er ekki kunnugt um svo stóran sjóbirting veiddan á stöng í Þjórsá en eins og myndin ber með sér er hann virkilega fallegur og í góðu standi.
„Ég fékk hann á Nobbler útgáfu sem ég hnýtti sjálf í vetur. Ég festi hana og sleit í botni síðar og á ekki aðra,“ hló hún þegar spurt var um fluguna.
Helga er áfram við veiðar í dag í Þjórsá og er veiðifélagi hennar búinn að landa fjórum sjóbirtingum það sem af er degi og er sá stærsti í dag áttatíu sentímetrar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |