Mættu á þyrlu í urriðaveiði í Mýrarkvísl

Þyrla fyrir utan veiðihúsið í Mýrarkvísl. Matthías Þór segir það …
Þyrla fyrir utan veiðihúsið í Mýrarkvísl. Matthías Þór segir það gerast reglulega að fjallaskíðafólk komi í veiði þegar skyggni til að fara í brekkurnar er ekki til staðar. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson

Vorveiðin fyrir norðan er að komast á fullt. Veiðimenn eru farnir að sækja meira á hefðbundna vorveiðistaði og hópur veiðimanna mætti á þyrlu í Mýrarkvísl á fimmtudag og gerðu góða veiði í urriðanum. Matthías Þór Hákonarson sem tók á móti veiðimönnunum segir að fólkið hafi verið í skýjunum með þetta. „Það er mikið af fjallaskíðafólki fyrir norðan og þegar er skýjað eða þoka er ekki hægt að fljúga í fjöllunum og þá kemur þetta fólk gjarnan til okkar. Fólkið mætir bara og við erum með allt sem þarf, stangir og vöðlur og leiðsögumennirnir fara með þau út. Þetta gerist reglulega á vorin, eins og ég segi þegar ekki er hægt að fljúga í skíðabrekkurnar,“ sagði Matti í samtali við Sporðaköst.

Gilbert Jónsson landaði þessum veglega urriða á ósasvæðinu í Lónsá …
Gilbert Jónsson landaði þessum veglega urriða á ósasvæðinu í Lónsá sem er skammt frá Þórshöfn á Langanesi. Vorið er líka mætt þar. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson

En hvernig er staðan núna?

„Ég fór í mína fyrstu ferð austur í síðustu viku og þetta er allt að lifna við og við gerðum flotta veiði. Við fórum í Laxá, Mýrarkvísl, Brunná og kíktum loks í Lónsá og fengum góða fiska þar. Veðrið núna er bara sumarveður og þá er fljótt að lifna yfir þessu,“ sagði Matti sem er leigutaki að mörgum ám og veiðisvæðum á Norðurlandi.

Yfirreiðin um þessi veiðisvæði var svona blandaður túr, veiði og viðskipti. Matti var að veiða með vinum sínum fráDenver í Bandaríkjunum og með í för voru líka leiðsögumennirnir Ísak og Gilbert.

Bleikjan í Brunná er þekkt meðal veiðimanna. Hér er John …
Bleikjan í Brunná er þekkt meðal veiðimanna. Hér er John Ablutz með huggulegt eintak. 65 sentímetrar. Þessi veiddist skammt frá þjóðvegsbrúnni. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson

Veiði hófst formlega í Lónsá um mánaðamótin og vorið var mætt þangað. Kominn æðarfugl og stöku bleikja upp í á og nokkuð af fiski í ósnum. „Við náðum ekki bleikju upp í á. Hún var frekar treg en við fengum birtinga í ósnum. Við stoppuðum stutt í Brunnánni en fengum strax eina 65 sentímetra bleikju rétt við þjóvegsbrúna og eina smærri aðeins ofar og lönduðum einum birtingi líka.“ Matti segir að þetta hafi verið svona klukkutímastopp. „Það er bara eiginlega komið sumar hérna. Í Mýrarkvíslinni vorum við að fá fiska á þurrflugumaura á dauðareki.“

Er það hefðbundið að vera að veiða þurrflugumaura í byrjun maí í kvíslinni?

„Þetta tengist bara veðrinu og hvernig vorið kemur. Maður getur svo sem alveg veitt á þurrflugumaura þó að það sé frost en þá þarf maður að skauta þeim. Við vorum hins vegar að dauðreka þeim.“

Urriði úr Mýrarkvísl. Þessi fékkst í stað númer 15. Veiðimaður …
Urriði úr Mýrarkvísl. Þessi fékkst í stað númer 15. Veiðimaður er John Henry Ablutz. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson

En Laxá. Hvernig leist þér á svæðin ykkar þar?

„Það er sama staðan í raun og veru. Við stoppuðum þar í stuttan tíma og lönduðu þremur fallegum urriðum og vorum þá í Presthvammi. Annars frétti ég af mönnum sem veiddu þar á föstudag og þeir voru með tuttugu fiska.“

Annars gerði Matti ágæta ferð í Presthvamminn áður en vorið gerði sig gildandi fyrir norðan. Sonur hans Benjamín Kári fékk þá flottan fisk í snjókomunni og elsti sonur hans, Kristján Gabríel lék sama leikinn og fjölskyldan lét ekki þar við sitja því systir Matta, Bjarkey Sif landaði sínum fyrsta fiski á flugustöng og kom hann úr Mýrarkvíslinni, þaðan sem gert var út.

Það hefur ekki mikið verið veitt á urriðasvæðunum í Laxá en búið er að opna þau. Samtals er Matti og hans fólk því að selja núna sextán stangir í fluguveiði í urriða í Laxá. Það eru Efra og Neðra Hraun, Múlatorfa, Staðartorfa, Presthvammur, Syðra – Fjall og Ytra – Fjall. Fyrir áhugasama er hægt að skoða laus leyfi inni áfluguveidi.is. „Jú, það er alveg hægt að fara að kíkja á þetta allt. Allavega eins og veðrið er núna. Fimmtán stiga hiti og gras farið að grænka.“

Gleði og spenna. Bjarkey Sif með fyrsta flugufiskinn sinn. Þetta …
Gleði og spenna. Bjarkey Sif með fyrsta flugufiskinn sinn. Þetta er í veiðistað 2 í Mýrarkvísl fyrr í vor. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson

„Við reynum ekkert að fullselja vorið. Það geta komið flóð á þessum tíma og þá er bara hægt að veiða Kvíslina og Laxá. Það þarf að vera einhver skynsemi í þessu líka á þessum fyrstu vikum þegar von er á leysingum og öllum útgáfum af veðri.“

En sumarið Matti. Hvernig leggst það í þig?

„Ég held að það verði ekki vaðandi í ánum fyrir laxi og bókunarstaðan er mjög góð,“ hlær hann góðlátlega.

„Að öllu gamni slepptu þá er ég mjög bjartsýnn á laxinn, allavega hjá mér hér í Mýrarkvíslinni. Það sem við höfum verið að gera með veiðifélaginu í fiskrækt og ýmsum framkvæmdum er bara að skila sér. Við sjáum aukningu í laxinum og sumarið í fyrra er það áttunda besta frá upphafi í kvíslinni. Við gleðjumst yfir því þar sem að víða er lægð í veiðinni.“

Allt er gott sem endar vel. Bjarkey Sif hampar fyrsta …
Allt er gott sem endar vel. Bjarkey Sif hampar fyrsta flugufiskinum. Það er merkur áfangi fyrir hvern veiðimann. Ljósmynd/Matthías Þór Hákonarson


Mýrarkvísl gaf 272 laxa í fyrra á fjórar stangir. Öllum laxi er sleppt þar en taka má urriða en nokkuð mikið er af honum, sérstaklega ofarlega í ánni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert