Þrátt fyrir nokkurt bakslag í vorinu um helgina þá voru silungsveiðimenn víða á ferli í gær. Veiðifólk var að uppskera og við ræddum við nokkra sem lönduðu fallegum fiskum. Í Þórisstaðavatni fékk Anna M. Hálfdanardóttir flottan sjóbirting á silfraðan Toby. Hann var um sjö pund og 68 sentímetrar.
Anna sagði í samtali við Sporðaköst að þeim hefði þótt þetta dræmt. Fóru aðeins á föstudagskvöldið og tóku svo tíma í gærmorgun og þá kom þessi fallegi sjóbirtingur. „Við urðum aðeins vör við fleiri fiska en þetta var sá eini sem við náðum. Við höfum ekki farið snemma vors áður í vatnið,“ upplýsti hún.
Þórisstaðavatn er eitt af þremur vötnum í Svínadal og er hluti af vatnakerfi Laxár í Leirársveit og þangað gengur lax og sjóbirtingur en uppistaðan af veiðinni er staðbundinn bleikja og urriði.
Guðjón Þór Þórarinsson fór í Þingvallavatn í gær og náði einni fallegri bleikja í Vatnskoti. „Já. Ég fékk þessa á Krókinn númer tólf í miklu ölduróti en það var hvasst þarna,“ sagði Guðjón í samtali við Sporðaköst. Hann varð ekki var við fisk á svæðinu fyrir utan þessa fallegu bleikju. „Maður sér náttúrulega ekkert í þessu róti en ég en ég held að þurfi að hlýna aðeins. Bæði vantar nokkrar gráður í lofthita og vatnið var býsna kalt. En þetta fer að koma. Allavega segir dagatalið það.“ Hann sagðist aðeins hafa séð einn veiðimann við vatnið í gærmorgun og var sá að kasta á Öfugsnáða.
Guðjón eða Gaui er sérlega áhugasamur í Úlfljótsvatn eða Úlfinn eins og hann kallar vatnið. Sonur hans náði fallegri bleikju þar í vikunni og tók hún Krókinn líka.
Fram til þessa hefur hið vinsæla svæði Hraunsfjörður ekki verið að gefa nema örfáa fiska. Það er kannski ekki skrítið eftir virkilega kaldan aprílmánuð þar sem var reglulega næturfrost.
Elliðavatn og Vífilsstaðavatn hafa bæði verið að gefa ágæta veiði og þá sérstaklega það fyrr nefnda en þaðan hafa veiðimenn verið duglegir að deila myndum af samfélagsmiðlum.
Framundan er vætutíð og ekkert sérlega hýtt á landinu. Þá er bara að klæða sig aðeins betur og jafnvel fara bara stutt í einu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |