Sex veiðikonur sem kalla sig Veiðipöddurnar áttu ógleymanlega ferð í Fremri Laxá þegar þær opnuðu ána um og eftir helgi. Með í för var leiðsögumaðurinn Hallgrímur Gunnarsson, betur þekktur sem Gími og af mörgum kallaður súpergæd.
Þetta er þriðja árið sem hópurinn opnar Fremri Laxá og sagði Guðfinna Pétursdóttir sem var í opnuninni að þetta væri besta árið þeirra. „Veiðin var bara stórkostleg og það var fiskur um alla á. Hann var hoppandi í kringum okkur hvert sem við fórum. Eitt kvöldið lægði alveg og þá kom fluga og það var fiskur um allt. Ekkert smá líf. Það kvöld var alveg hræðilegt að þurfa að hætta og fara í hús,“ hlær Guðfinna.
Hún segir að veðrið hafi verið allavega en ekkert sem aftraði þeim og yfirleitt gekk hann aðeins niður seinnipartinn. Reyndar var síðasti morguninn sem var þriðjudagur, þannig að þær slepptu honum. Þá var veðrið eiginlega bara ömurlegt. Gul viðvörun og bylur. Það er rétt að minna á að það er rúmlega mánuður síðan að Íslendingar fögnuðu Sumardeginum fyrsta.
„Þetta er langbesta opnunin hjá okkur. Við veiddum miklu meira en hin árin sem við höfum verið þarna. Við lönduðum 93 urriðum þannig að við fengum allar fullt af fiski. Við slepptum nánast öllum nema örfáum sem voru svo illa teknir að við urðum að drepa þá.“
Það er sjálfsmennska í veiðihúsinu við Fremri Laxá og þær skiptust á að elda. Hver stöng sá um hádegismat einu sinni, Happy hour einu sinni og kvöldmat í eitt skipti. Eins og vinsælt er í kvennahópum var ólíkt þema í hverju Happy hour. Þau voru kúrekar, Mexíkóar og svo gamlárskvöld án flugelda, þar sem nokkuð var um hesta í nágrenninu. Þær létu stjörnuljós duga.
Í kvöldmáltíðir var borið fram chilli con carne, þorskur og kjúklingur. „Þetta var allt svo gott að það er ekki hægt að gera upp á milli hvaða máltíð var best,“ svaraði Guðfinna aðspurð um bestu máltíðina.
„Mest vorum við að fá þessa fiska á litla kúluhausa sem við veiddum á andstreymis. Þegar var mjög kalt þá stækkuðum við aðeins flugurnar til að koma þessu betur niður og það virkaði vel.“
Fremri Laxá er ein besta urriðaá landsins og þar veiðast árlega hátt í fjögur þúsund urriðar. Áin fellur í Svínavatn og Laxá á Ásum rennur úr því sama vatni. Fiskurinn í Fremri Laxá er fremur smár en sprettharður. Innan um má þó alltaf finna fiska sem eru allt að sextíu sentímetrar. Þegar líður á sumar gerist það oft að veiðimenn verða varir við lax og dæmi eru um ár þar sem nokkrir laxa hafa veiðst í ánni.
Veiðipöddurnar voru rétt að byrja sumarið og gerðu það með glæsibrag en framundan er fleiri veiðitúrar í sumar. Guðfinna segir þrjár ferðir til viðbótar þegar skipulagðar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |