Laxá í Mývatnssveit stóð undir öllum væntingum veiðimanna sem hófu veiðitímabilið þar í morgun. Vel yfir hundrað urriðum var landað á vaktinni og víða urðu veiðimenn varir við mikið líf. „Brotaflóinn er loðinn af fiski,“ sagði Bjarni Júlíusson í samtali við Sporðaköst í morgun.
Veiðinni var aðeins misskipt og efstu svæðin voru að gefa vel á meðan að neðstu svæðin voru rólegri. Skurðurinn gaf 25 fiska og mörgum finnst Geirastaðaskurðurinn einn af skemmtilegri veiðistöðum svæðisins á meðan að aðrir sneiða hjá honum. En það var víðar góð veiði. Þannig tók stöngin sem byrjaði í Brotaflóa í Hofstaðalandi tíu fiska í morgun.
Svæðið Geldingaey gaf fimmtán fiska og Helluvað tuttugu. Árni Friðleifsson og félagi hans Jóhann Jón Ísleifsson áttu mjög góðan morgun. Settu í tólf fiska og lönduðu níu flottum urriðum og voru þeir flestir á bilinu 55 til 60 sentímetrar. „Við mældum tvo og þeir voru báðir 58 sentímetrar. Við vorum að fá þetta mest á púpur. Slæðuna og fasana útgáfur og fleiri góðar. Við fengum flesta fiska í Garðsenda og það var gaman að sjá hvað fiskurinn er vel haldinn. Þetta eru ekta Mývatnssveitareintök eins og maður þekkir þá best," sagði Árni Friðleifsson í samtali við Sporðaköst.
Bjarni Júlíusson og synir voru að fá mikil viðbrögð við straumflugum í Brotaflóanum. Grannar tökur en margar. Rektorinn var að gefa og er það ein af þessum klassísku flugum sem glatt hafa margan urriðan í Mývatnssveit. Sum árin eru það stærstu Rektorarnir sem gefa best.
Í fyrra voru þessir menn að kafna úr hita og veiddu á stuttermabolum. Þá lá við að kvartað væri undan hitastiginu. Nú er rok og allir þeir sem Sporðaköst ræddu við, kvörtuðu undan roki. Það er erfitt um vik fyrir veiðigyðjuna að skapa hið fullkomna andrúmsloft með svo kröfuharða menn. En veiðin á þessari fyrstu vakt er eins góð og hægt er að búast við. Sennilega flokkast þessi opnun sem ein af þeim betri og hafa þær þó verið ágætar síðustu ár. Það spáir hlýnandi fyrir norðan og þá kemur að því að neðstu svæðin, Brettingsstaðir og Hamar detti inn með veiði líka.
Á morgun hefst svo veiðin í Laxárdal, sem er neðan við Mývatnssveitina og iðulega haldast þessi svæði í hendur þegar kemur að veiði. Raunar gefur Laxárdalurinn oftast aðeins færri fiska. En á mótir státar dalurinn af stærri fiskum að jafnaði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |