Fyrsti laxinn í Þverá í Borgarfirði veiddist fljótlega eftir að veiðimenn byrjuðu þar í morgun. Þrátt fyrir mikla rigningu settu þeir Ingólfur Ásgeirsson, einn leigutaka og Andrés Eyjólfsson yfirleiðsögumaður í ánni í fisk og lönduðu í annarri bunu morgunsins.
Staðurinn var afskaplega hefðbundin eða Kirkjustrengur. Ingólfur setti í laxinn á þyngdan Sunray og tók hann mjög neðarlega enda Þverá mjög vatnsmikil. Mældist laxinn 81 sentímetri og eins og aðrir Borgarfjarðarlaxar í byrjun veiðitímans var hann afskaplega fallegur og vel haldinn. Hann var ekki lúsugur en spriklandi nýr og silfurbjartur.
Aðeins er kominn litur í Þverá en búast má við að aðstæður batni þegar líður á daginn og þá sérstaklega á morgun ef spá gengur eftir með að dragi hratt úr rigningu.
„Þetta er svona gamaldags sumar, eins við munum eftir frá því að við strákar í kringum 1980,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að hann landaði fyrsta laxinum sumarið 2023 í Þverá. „Ég er ekki alveg viss um að þetta sé sá fyrsti. Við lönduðum honum klukkan hálf níu og ég hef ekki heyrt frá öðrum.
Hér rignir og rignir en það er hlýtt og ekki vindur þannig að það væsir ekkert um okkur þó að við séum blautir."
Laxar voru búnir að sjást víða á vatnasvæðinu en vissulega setur þetta mikla vatn og aðeins litur í ánni strik í reikninginn en það verður bara þess meira spennandi að sjá hvað gerist í framhaldinu.
Kjarrá opnar á morgun og en þar verða menn í ævintýrum ef að líkum lætur. Slóðar með ánni eru víða illa farnir og jafnvel á mælikvarða Kjarrár sem þekkt er fyrir erfiða slóða. Unnið hefur verið hörðum höndum við að laga slóðana síðustu daga. Þrátt fyrir það er ljóst að menn mun þurfa að labba mikið þar fyrstu dagana.
Þverá er komin á blað og spennandi verður að sjá hvernig morguninn var, þegar menn koma í hús og fréttir berast.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |