Þeir eru misjafnlega dýrmætir laxarnir sem eru að veiðast þessa dagana. Sennilega kom sá dýrmætasti til þessa, í vor, á land í gær í Straumunum í Borgarfirði. Þar setti ungur veiðimaður í sinn fyrsta lax og landaði honum. Maríulax og eftir því sem við komumst næst var þetta fyrsti fiskurinn af svæðinu.
Sölvi Hrafn Arnarsson, tólf ára setti í þessa líka íðilfögru hrygnu sem mældist 77 sentímetrar. Sporðaköst náðu tali af stoltum pabba, Arnari Má Baldvinssyni. „Maður var nú ekki með miklar væntingar. Á þessum tíma í fyrra hafði veiðst einn lax hérna. Svo var veðrið ekkert að hjálpa okkur. En Sölvi gerði þetta alveg sjálfur og var kominn efst á svæðið þegar hann kallaði á mig og ég stökk til með háfinn,“ sagði Arnar Már í samtali við Sporðköst.
„Já. Hann er sko örugglega til í að tala við þig. Hann er búinn að sjá alla Sporðakastaþættina og er meira en til í að segja þér frá þess,“ brást Arnar Már við þegar leitað var eftir spjalli við veiðimanninn unga.
Til hamingju með þetta Sölvi. Hvernig var þetta?
„Takk kærlega. Þetta var nú ótrúlega gaman fyrst og fremst. Ótrúlega gaman að fá maríulaxinn. Ég var að fara að rífa upp línuna til að kasta aftur þegar hann stökk á fluguna. Ég fékk hann í Straumaklöpp og það er sá staður sem er sjaldgæfast að fá fiska á. Og ég fékk hann á rauðan Frances,“ sagði Sölvi um draumafiskinn. Hann var búinn að reyna nokkrar flugur áður en hann tók Francesinn. Prófaði Blue Ghost og eina sem var svona alveg eins og býfluga og tók svo svartan Frances en að lokum tók hann rauðan.
„Ég var svona tíu til tuttugu mínútur með hann, held ég. Ég hélt að þetta myndi taka lengri tíma en hann var bara orðinn þreyttur og hann reyndi ekkert að synda burt þegar pabbi kom með háfinn.“
Sölvi borðaði veiðiuggann eins og er siður með maríulaxa. „Ég kúgaðist þegar ég var að reyna að borða hann fyrst en skar hann svo í sundur og þá gat ég borðað hann. Ég var búinn að ákveða þegar ég var átta ára að ég myndi veiða maríulaxinn á flugu. Ég veiddi fyrst silung þegar ég var átta ára og það var á spún en mig langaði að veiða fyrsta laxinn á flugu og það tókst."
Áður en við kvöddum Sölva sagði hann að fyrra bragði að hann lofaði að sleppa alltaf hér eftir löxum sem væru sjötíu sentímetrar eða stærri, en hann ætlar að borða þennan enda, „Hann var nýgenginn og bara alveg silfur.“
Straumarnir eru mjög vatnsmiklir og þá stoppar fiskur lítið á leið sinni. Það var því einstaklega vel gert hjá Sölva að hitta á þennan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |