Hópur á vegum árnefndar sem voru við störf í Stóru – Laxá um helgina sáu laxa á nokkrum stöðum. Formaður árnefndar, Jóhann Gunnlaugsson ásamt Hrafni H. Haukssyni voru við merkingar á efra svæðinu í Stóru.
„Já. Að sjálfsögðu skimuðum við eftir laxi og það er talsvert af fiski þegar kominn upp eftir. Við sáum víða laxa og mest á Hólmasvæðinu. Á Hólmabreiðu lágu sjö laxar og tveir þeirra voru gríðarvænir. Á meðan við drukkum kaffisopa og dáðumst að þessum glæsilegu fiskum, bættust allt í einu tveir í hópinn,“ sagði Hrafn í samtali við Sporðaköst.
Það vakti sérstaklega athygli viðstaddra að tveir af þessum fiskum voru greinilega farnir að taka lit svo nokkuð er síðan að þeir fiskar mættu. „Þetta veit á eitthvað gríðarlega gott,“ fullyrti Hrafn.
Stóra – Laxá skilaði betri veiði í fyrra en mörg árin þar á undan. Samtals veiddust 934 laxar í henni í fyrra. Fara þarf aftur til áranna 2013 og 2014 til að finna viðlíka veiði í henni. Margt jákvætt hefur einmitt gerst í umhverfi Stóru – Laxár. Netauppkaup í Ölfusá og nú síðast breyttar reglur í Hvítá við Iðu þar sem fiski verður sleppt í sumar í meira mæli en áður hefur þekkst. En er rúmlega hálfur mánuður í opnun í Stóru og miðað við lýsingar árnefndarmanna verður það spennandi opnun.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |