„Ég held að við getum bjargað laxinum“

Denni og Stefán eru í fullri vinnu við að fylgjast …
Denni og Stefán eru í fullri vinnu við að fylgjast með löxum og framkvæma þau verndunaráform sem eru í gangi í Vopnafirði og víðar á svæðinu. Ljósmynd/Six Rivers

Vorlaxinn, eða tveggja ára laxinn er óvenju snemma á ferðinni í ár. Það sem meira er hann virðist vera að koma í nokkru magni. Hvergi blasir þetta betur við en á Norðausturhorni landsins. Selá í Vopnafirði tók þannig á móti sínum fyrstu löxum um mánaðamótin. Oft er það ekki að gerast fyrr en nokkuð er liðið á júní, jafnvel komið fram undir þann 15.

Fyrstu laxarnir í Selá voru staðfestir þann 4. júní. Það var Sveinn Björnsson eða Denni eins og hann er ávallt kallaður sem sá þá fyrstu neðan við Fossinn. Nokkrum dögum síðar var Stefán Hrafnsson á útkíkki og sá þá væna torfu af fiski á sama stað. Hann segir vorið mun fyrr á ferðinni í ár en undanfarin ár. „Hér eru allar ár að verða komnar í sumarvatn og það var byrjað að merkja gönguseiði í síðustu viku,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.

Hrogn grafin seint að hausti. Bæði flytja þeir lifandi laxa …
Hrogn grafin seint að hausti. Bæði flytja þeir lifandi laxa upp á svæði sem ekki eru fiskgeng og grafa hrogn til að stækka búsvæðin. Ljósmynd/Six Rivers

Stefán hefur undanfarin ár verið í fullu starfi við árnar í Vopnafirði fyrirJimRatcliffe. Hann og Denni eru fyrir austan allt árið og yfir veturinn fylgjast þeir með löxum með radíómerkjum, svo eitthvað sé nefnt. „Það er allt sem bendir til þess að við séum að fara í gott sumar hér fyrir austan. Hvort sem það eru fiskifræðingarnir eða annað það sem lesa má úr náttúrunni þá erum við bjartsýnir. Það verður örugglega tölvuert af tveggja ára laxi og vonandi fáum við gott magn af smálaxi og þá verður hér gott sumar."

Það er án efa kalt á þessum sporðum sem bíða …
Það er án efa kalt á þessum sporðum sem bíða kreistingar. Ljósmynd/Stefán Hrafnsson

Stefán vill meina að þær ræktunaraðgerðir sem staðið hefur verið fyrir í tengslum við laxinn í Vopnfirði, eigi að fara að skila sér. „Við erum farin að sjá árangur í Hofsá og það ætti að fara að sjást líka í Selá og í Miðfjarðará. Það starf eykur líka á bjartsýnina hjá okkur fyrir komandi sumar og næstu sumur."

Lax kominn í kistu í Miðfjarðará í Bakkafirði.
Lax kominn í kistu í Miðfjarðará í Bakkafirði. Ljósmynd/Six Rivers
Hafið þið sett einhver markmið varðandi veiðitölur með þessar ár?

„Það er svo erfitt að horfa á veiðitölur eins og til dæmis í Selá. Reglunum hefur verið breytt til að minnka álag á laxinn. Við horfum meira á tölur um laxagengd, eins og í Fossinum. Hversu mikið gengur í gegnum þann teljara. Maður yrði mjög ánægður að sjá þúsund laxa fara í gegnum Fossinn. Okkur fannst sumarið í fyrra býsna gott og þá fóru tæplega sjö hundruð laxar í gegn. Ef við fengjum þúsund laxa í sumar eða næsta sumar þá er Selá orðin býsna lífleg."

Eitt af því sem hefur verið gert í ræktunarátaki er að flytja lifandi laxa upp á svæði sem eru ófiskgeng. Það hefur verið gert í Miðfjarðará og Selá og er markmiðið að nýta góð hrygningarsvæði og stækka búsvæði í þessum ám og svæði sem henta vel laxaseiðum. Þeir hafa valið í Selá að gera meira af því að flytja lifandi fiska en að grafa hrogn. Það hefur vissulega verið gert líka að grafa hrogn í hliðarlækjum, en megin áherslan hefur verið á að láta laxinn sjá sjálfan um þetta.

Stefán Hrafn hlustar eftir svari frá radíómerki á laxi undir …
Stefán Hrafn hlustar eftir svari frá radíómerki á laxi undir ís. Þeir félagar eru í þessu verkefni allt árið. Ljósmynd/Denni

Margar svartsýnisspár hafa verið kynntar um laxinn, að það muni ekki takast að bjarga honum. Ykkar maður Ratcliffe hefur meðal annars talað þannig. Eykur þetta á bjartsýni að hægt sé að bjarga laxinum?

Já. Ég held það. Ég held að ef það er einhvers staðar hægt þá er það hér í sveitinni á Norðausturlandi og á Íslandi yfir höfuð. Hér er minna af fólki og laxinn fær að vera nokkurn veginn í friði. Já. Ég trúi því hundrað prósent að við getum bjargað stofninum og það er ekkert smá gaman að taka þátt í þessu og við getum í raun gert allt sem mönnum dettur í hug að gera og við erum að fara margvíslegar leiðir. Ef það tekst einhvers staðar að bjarga laxinum, þá er það hér,“ sagði Stefán.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert