Barmarnir gerðu það gott í Norðurá

Hluti hópsins með Laxfoss í baksýn. Frá vinstrí: Dögg Hjaltalín, …
Hluti hópsins með Laxfoss í baksýn. Frá vinstrí: Dögg Hjaltalín, Anna Lea Friðriksdóttir, Sandra Morthens, Inga Birna Ragnarsdóttir, Guðný Helga Herbertsdóttir og Kristín Klara Grétarsdóttir. Ljósmynd/Barmarnir

Veiðihópurinn Barmarnir gerði flotta veiði í Norðurá um helgina og í byrjun viku. Hópinn skipa yfir tuttugu veiðikonur og hafa þær veitt saman víðs vegar frá árinu 2015. Þær fengu Norðurána barmafulla þegar þær mættu og erfið skilyrði. Samt lönduðu þær tíu löxum og misstu annað eins á tveimur dögum.

Norðuráin var í fjörutíu rúmmetrum þegar þær mættu á svæðið og býsna hvasst. Hún var hins vegar komin niður í 25 rúmmetra þegar síðasti morguninn rann upp og þá var gaman. Tvær af þessum reyndu veiðikonum lönduðu sínum stærstu löxum til þessa.

Guðný Helga með hrygnuna sem hún fékk á Eyrinni á …
Guðný Helga með hrygnuna sem hún fékk á Eyrinni á rauðan Frances. 84 sentímetrar og hennar stærsti til þessa. Fiskurinn var lúsugur og eins og sést svo silfurbjartur. Ljósmynd/Barmarnir

Guðný Helga Herbertsdóttir setti í kröftugan fisk á Eyrinni í gærmorgun. „Hann tók rauðan Frances og þetta varð hörkubarátta. Hann hagaði sér undarlega fannst mér. Keyrði niður í dýpið og á milli þess sem hann tók kröftugar rokur þá lá hann eins og grjót og ég haggaði honum ekki í einhvern tíma. Ég átti von á að þetta væri jafnvel enn stærri fiskur en raunin varð,“ sagði Guðný Helga í samtali við Sporðaköst.

Sandra Morthens með fallegan hæng. Eins og Brynjar Þór Hreggviðsson …
Sandra Morthens með fallegan hæng. Eins og Brynjar Þór Hreggviðsson leiðsögumaður og rekstraraðili við Norðurá sagði, Þetta er magnað dýr. Ljósmynd/Barmarnir

Viðureignin tók fjörutíu mínútur og þegar upp var staðið sagði málbandið 84 sentímetrar. Lúsug hrygna og eins fallegt eintak og hægt er að hugsa sér, þegar kemur að Atlantshafslaxi. „You can´t beat that feeling,“ sletti hún á ensku þegar hún var spurð hvernig þetta hefði verið. „Þetta var einfaldlega magnað. Það er frekar langt síðan að ég hef komið í Norðurá. Það er svo fallegt hérna og þetta var allt til svo mikillar fyrirmyndar. Náttúrufegurðin, fiskarnir og svo vorum við með heimsklassaleiðsögumenn.“ Þessi fiskur sem Guðný Helga landaði „með allar æðar þandar“ mældist 84 sentímetrar. Hennar stærsti til þessa. Hún segist oft hafa verið nálægt þessari stærð en dreymir um að komast í 90 plús klúbbinn.

Ekkert þemakvöld. Meira um snakk og Vogaídýfu og unnið með …
Ekkert þemakvöld. Meira um snakk og Vogaídýfu og unnið með grunnþarfirnar eins og Guðný Helga lýsti stemmingunni. Ljósmynd/Barmarnir

Stærsta fiskinn í hollinu fékk Þórunn Auðunsdóttir og mældist hann 88 sentímetrar. Ótrúlega fallegur fiskur eins og sést á myndinni sem fylgir með neðst í fréttinni. Fiskur Þórunnar er sá næststærsti til þessa í Norðurá.

Það eru nokkuð mörg ár frá því að svo fallegir vorfiskar hafa veiðst á Íslandi og það þessi fjöldi. Til bókar í Norðurá hafa verið færðir 64 laxar. Þann 15. júní í fyrra voru þeir 38 talsins. Allir veiðimenn sem hafa verið í vorveiði þessa fyrstu daga veiðitímans eru sammála um að fiskurinn er vel haldinn.

En áfram með Barmana. Viðureignirnar enduðu ekki allar vel. Mikið vatn og stór fiskur er ávísun á mikil átök sem geta endað á hvorn veginn sem er. „Já. Við misstum líka eitthvað af fiski og fengum tökur. Ég man þó sérstaklega eftir einni viðureign sem var búin að standa í klukkutíma áður en fiskurinn slapp." Aðspurð segir Guðný Helga að það hafi ekki verið neinn grátur í Norðurá þrátt fyrir slíkar viðureignir inn á milli. „Það var bara hlátur og gleði í Norðurá hjá okkur.“

Anna Lea Friðriksdóttir með enn eitt glæsieintakið af vorfiski.
Anna Lea Friðriksdóttir með enn eitt glæsieintakið af vorfiski. Ljósmynd/Barmarnir

Voruð þið með þemakvöld?

„Nei. Við erum meira svona snakk og Vogaídýfu-týpurnar. Erum fyrst og fremst að vinna með grunnþarfirnar,“ hlær hún.

Þórunn Auðunsdóttir með stærsta laxinn úr hollinu. 88 sentímetra hængur. …
Þórunn Auðunsdóttir með stærsta laxinn úr hollinu. 88 sentímetra hængur. Þetta er sá næststærsti úr Norðurá til þessa. Ljósmynd/Barmarnir

Barmarnir hafa veitt um allt í gegnum árin. Í fyrra gerðu þær magnaða ferð til Grænlands þar sem þær veiddu bleikju eins og enginn væri morgundagurinn. Þær hafa veitt oft í Langá, Laxá í Kjós og Stóru-Laxá, svo einhverjar séu nefndar. Kjarninn í hópnum þeirra eru um tuttugu konur en oft bætast í hópinn nýjar konur þegar forföll eru eða ef stangafjöldi er meiri en þær manna. Guðnýju Helgu telst til að nokkrir tugir kvenna hafi veitt með þeim í gegnum árin. „Þegar við vorum að byrja fyrir um níu árum síðan voru kvennaveiðihópar örfáir. Árdísirnar voru að veiða og kvennadeild Stangó en það voru ekki mikið fleiri. Nú er landslagið gjörbreytt og sífellt fleiri konur uppgötva hvað þetta er mögnuð afþreying.“

Barmarnir standa fyrir einni ferð á hverju sumri sem allar félagskonur geta tekið þátt í. Þar fyrir utan fara þær saman, jafnvel hluti hópsins nokkrum sinnum yfir sumarið. „Það er alltaf veisla að veiða með Börmunum,“ sagði Guðný Helga að lokum og brosti.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert