Þeim fjölgar hratt laxveiðiánum sem hafa opnað. Í gær hófst veiði í Laxá í Leirársveit og kom einn lax þar á land og veiddist hann undir Laxfossi eins og algengt er í opnun. Opnunarfiskurinn var hrygna sem mældist 72 sentímetrar. Sett var í annan lax á sama stað en hann slapp. Þá sáu veiðimenn laxa í Sunnefjufossi og einnig sást lax stökkva í Eyrarfossi, að sögn Hauks Geirs Garðarssonar, leigutaka.
Hítará opnaði í morgun og fyrsti laxinn þar kom fljótlega. Hann tók hitsaða einkrækju og það var veiðimaðurinn Henry Mountain sem landaði fallegum nýrenningi. Nokkur spenna var í gangi í Hítará, þar sem hafði sést töluvert af laxi fyrir opnun. Þetta byrjaði svo sannarlega eins og menn höfðu kosið. Strax í fyrsta rennsli reisti Henry lax og annan skömmu síðar. Haraldur Eiríksson leigutaki leit á klukku sína um leið og sá þriðji negldi einkrækjuna. Hún var átta mínútur yfir. „Við tókum þessu mjög rólega. Fórum upp í hús aftur og fengum okkur kaffi. Bara mjög notaleg morgunstund,“ sagði Haraldur Eiríksson í samtali við Sporðaköst þegar aðeins var liðið á morguninn.
Laxá á Ásum opnar í dag og fjölmargar aðrar fylgja í kjölfarið.
Fyrsti laxarnir eru að mæta í Rangárnar og myndavélateljarar hafa ljóstrað upp um för þeirra.
Eftir góða fyrstu daga í laxveiðinni í Borgarfirði dró úr veiðinni, eins og við var að búast. Hins vegar hefur hlýindakafli sett strik í reikninginn. Víða hefur vatnshiti farið í fimmtán til átján gráður og þá er lítil taka í laxinum. Hinum líður þá einfaldlega eins og Íslendingi á Tenerife í 35 stiga hita. Kjör hitastig fyrir laxveiði er tíu til tólf gráðu vatnshiti. Nú þegar hlýindin eru að baki, í bili að minnsta kosti verður forvitnilegt að sjá hvort veiðin glæðist. Stórstreymt er á næstu dögum og ef allt er eðlilegt á koma töluvert af laxi í þann straum.
Það dró svo heldur betur til tíðinda þegar leið á morguninn í Hítará. Hermann Svendsen setti í smálax og landaði klukkan rétt rúmlega tíu. Ingvar Svendsen bóðir hans var næstur og setti í 86 sentímetra lax. Glæsilegt eintak af laxi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |