„Þetta er búið að vera mjög gott í Hraunsfirðinum, loksins eftir að kom þokkalegt veður,“ sagði silungahvíslarinn Örn Hjálmarsson í samtali við Sporðaköst. Örn hefur farið þó nokkrar ferðir í Hraunsfjöðrin í vor og gert þar afbragðs veiði. Síðasti túr var á sunnudag sem leið og þá landaði hann sex boltableikjum sem voru allar í kringum þrjú pundin.
„Hún var bara að taka Langskegginn hjá mér. Ég var með dropper en hann var ekki að virka. Hún vissi alveg hvað hún vildi.“
Örn nefnir að það sé mikið líf í Hraunsfirðinum og fiskur nánast um allt. „Vorið var mjög skrítið. Menn byrja gjarnan að fara þarna mjög snemma en í ár kom ekki veðrið sem hentar þessari veiði fyrr en aðeins var liðið á júní. Þetta er alveg tveimur vikum seinna en venjulega.“
Um helgina var Örn við veiðar í víkinni við hraunið og í hrauninu, sem hann kallar og hann veit sem er að staðkunnugir vita hvað hann er að meina. Hann nefnir þó að hann var Stykkishólmsmegin.
Þó nokkuð var af fólki um helgina að veiða í Hraunsfirðinum og sagði Örn að aflabrögðin hefðu verið mjög misjöfn. Allt frá því að hann horfði upp á góða veiði yfir í það að fólk fékk ekki neitt og allt þar á milli.
Örn notar langan taum eða eina og hálfa stangarlengd þegar hann veiðir Hraunsfjörðinn og dregur mjög hægt. Það er hans reynsla að best sé að vera mættur á svæðið um klukkan átta um morguninn og veiða til hádegis. Eftir það dettur takan oft niður en tekur við sér aftur síðdegis.
„Þetta eru svo öflug dýr að það er alveg magnað. Þær rífa svoleiðis út línuna og krafturinn er magnaður í þessari sjóbleikju í Hraunsfirðinum. Ástandið á stofninum þarna virðist vera mjög gott og það er nóg af henni,“ segir Örn.
Hraunsfjörðurinn er hluti af Veiðikortinu og af því leiðir að ódýrt er að veiða Hraunsfjörðinn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |