Einn sá stærsti á öldinni á Íslandi

Rétt um klukkan hálft tólf í morgun setti veiðimaður í stóran lax í Blöndu. Nánar tiltekið á Breiðu norður. Undir var svartur Frances hálf tomma. Veiðimaðurinn sem hélt á fimmtán feta tvíhendunni var Gísli Vilhjálmsson. Honum til aðstoðar var svo Þorsteinn Hafþórsson. 

 Fast var tekið á fiskinum en hann sýndi sig ekki fyrr en eftir tæpan hálftíma og þá úti á miðri Breiðunni. „Ég sagði strax við Gísla að þetta væri hundraðkall. Ég var búinn að stilla honum upp alveg við Gjána en brúnin á henni er stórhættuleg þegar menn takast á við stóra fiska. Einu sinni ætlaði hann niður á brot en Gísli stöðvaði hann. Ég er alveg brútal og læt menn nota græjur sem geta ráðið við öfluga fiska,“ sagði Þorsteinn Hafþórsson leiðsögumaður í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að þeir félagar voru búnir að landa þessari miklu skepnu. Það er enn merkilegra að hugsa til þess að þetta var hrygna. En algengara er að stærstu laxarnir séu hængar. 

Viðureignin stóð í þrjú kortér og var tekið fast á laxinum allan tímann. Laxinn mældist 110 sentímetrar og fylgir með myndband sem staðfestir mælinguna. Það er í anda þess sem Sporðaköst hafa verið að kalla eftir. Á myndbandinu sem fylgir fréttinni sést greinilega að fiskurinn stendur 110 sentímetra. Gísli sem slóst við laxinn blandaði sér í þetta. „Ég vil að það sé alveg skýrt að Þorsteinn setti í laxinn. Hann kastaði og setti í hann og rétti mér stöngina og sagði, hann er á,“ sagði Gísli. Það er ekki á hverjum degi sem veiðimenn vilja leiðrétta hluti af þessu tagi. En það er hér með komið á hreint.

Gísli Vilhjálmsson tannlæknir með hrygnuna stæðilegu sem er ein sú …
Gísli Vilhjálmsson tannlæknir með hrygnuna stæðilegu sem er ein sú stærsta sem veiðst hefur á Íslandi á öldinni. Ljósmynd/Þorsteinn Hafþórsson

Þetta er einn af stærstu löxum sem veiðst hafa á þessari öld. Sumarið 2015 veiddi Sturla Birgisson 112 sentímetra lax í Vatnsdalsá og í sömu á veiddi Ingólfur Davíð Sigurðsson 115 sentímetra lax árið 2006. Einhverjir fleiri fiskar kunna að hafa veiðst á öldinni í þessum stærðarflokki en líkast til er þetta stærsta hrygna sem veiðst hefur á þessari öld á Íslandi.

Eftir ábendingu frá áhugasömum lesanda Sporðakasta var rifjað upp að Ásgeir Heiðar veiddi 115 sentímetra hrygnu í Laxá í Aðaldal snemma í júlí 2013 á Hornflúð. Það er án efa stærsta hrygna og líklegast lax sem veiðst hefur á öldinni.

Það er líka áhugavert í þessu samhengi að Róbert Haraldsson setti í mjög stóran fisk á sama stað í gær og missti hann eftir klukkutíma. Hann sagðist aldrei hafa sett í svo stóran fisk áður.

Sporðaköst óska þeim Gísla og Þorsteini til hamingju með þennan mikla feng.

Fréttin var uppfærð klukkan 20:19 með viðbótar upplýsingum.

Gísli og Þorsteinn segja málið allt hafa verið samvinnuverkefni frá …
Gísli og Þorsteinn segja málið allt hafa verið samvinnuverkefni frá A til Ö. Steini setti í hann og Gísli slóst við hann og saman lönduðu þeir laxinum. Ljósmynd/Starir
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka