„Þetta var stutt sumar,“ varð veiðimanni að orði sem var að kasta fyrir lax í Víðidalsá í gær. Hitastigið var tvær gráður. Áin bólgin af vatni. Drjúgmikil rigning og vindur af norðri. Haustveður og auðvelt að kenna það við september eða jafnvel október.
Við þessar aðstæður opnaði Vatnsdalsá og Laxá í Aðaldal. Menn höfðu verið bjartsýnir fyrir opnun enda töluvert sést af laxi í báðum ám á þeim örfáu sumardögum sem höfðu viðkomu á Norðurlandi.
Skemmst er frá því að segja að enginn lax veiddist í Vatnsdalsá á fyrstu vakt. Í Laxá í Aðaldal komu fjórir á land á fyrstu vakt, sem var seinnipartinn í gær.
Um svipað leiti og Ronaldo landsleikjahæsti maður Portúgal fagnaði ólöglegu sigurmarki í Laugardalnum gegn Íslandi var annar íþróttakappi og öllu hærra skrifaður, að minnsta kosti á Íslandi að opna „markareikninginn sinn“ í Laxá í Aðaldal. Þar var á ferðinni Aron Pálmarsson sem setti í og landaði 85 sentímetra laxi í Hólmatagli á Silver Gray flugu númer 10.
Þá veiddust tveir laxar í Grástraumi og sá fjórði kom af Breiðunni.
Veðurspár gera ráð fyrir betra veðri á morgun og svo blíðu í framhaldinu af því. Kannski kemur þá annar í sumri fyrir norðan.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |