Nú hafa nokkrar laxveiðiár verið opnar í dágóðan tíma. Opnanir hafa verið misjafnar en margir tala um góða byrjun í samanburði við árið í fyrra. Ef við berum saman veiðitölur úr nokkrum þessara áa kemur í ljós mjög margbreytileg staða.
Veiðin í Urriðafossi í Þjórsá virðist vera umtalsvert lakari en í fyrra. Nýjar tölur á vef Landssambands veiðifélaga sýnir að 21. júní voru skráðir 160 laxar úr Urriðafossi. Á sama tíma í fyrra var talan 235 laxar. Rétt er að taka fram að veiðitölur úr Urriðafossi eru ekki staðfestar.
Norðurá er að byrja betur en í fyrra. Í dag eru skráðir 132 laxar í veiðibók þar, en voru á sama tíma 95 talsins.
Myndin snýst svo við þegar tölur úr Þverá/Kjarrá eru skoðaðar. Nú hafa veiðst um áttatíu laxar í þeim samtals en voru á sama tíma í fyrra 77. Þar er opnunin í besta falli á pari við það sem gerðist í fyrra.
Haffjarðará er með sömu veiði og í fyrra og þar hafa veiðst 28 laxar en voru 27 þann 21. júní í fyrra.
Blanda er að byrja mun betur miðað við 2022, en júní þar í fyrra var afspyrnu lélegur. Nú er merkjanlegur bati. 26 laxar eru komnir á land miðað við 9 á sama tíma í fyrra.
Miðfjarðará er mjög svipuð og í fyrra en veiðitímabilið hefur ekki staðið lengi í Miðfirðinum. Nú eru komnir þar á land 30 laxar á móti 31 í fyrra.
Víðidalsá er að byrja betur en í fyrra. Nú hafa verið skráðir 26 laxar úr ánni en þann 29. júní í fyrra voru komnir 16 á land þar.
Eystri – Rangá fer mun betur af stað en í fyrra. 20 laxar hafa veiðst þar en voru 2 á sama tíma í fyrra. Enn er rétt að taka fram að mjög stutt er liðið á veiðitímabilið og gefa þessar tölur líkast til einvörðungu vísbendingar um að meira er að koma af stórlaxi í ár en í fyrra. Smálaxinn er enn spurningamerki en yfirleitt er það hann sem heldur uppi tölunum.
Hítará er að byrja aðeins betur en í fyrra. Var með 19 á þessum tíma í fyrra en er nú komin í 25 laxa.
Laxá í Kjós er skila mun minni veiði en á upphafstímanum í fyrra. Nú eru bara 8 laxar bókaðir þar en voru 24 á sama tíma í fyrra.
Í öllum þessum ám sem nefndar eru hér að ofan eru til margvíslegar útskýringar og bókin er þykk þegar fletta þarf upp útskýringum og eða afsökunum. Við horfum hér hins vegar einungis á tölur. Auðvitað vita allir sem vilja að veður og fjölbreytilegar aðstæður geta legið til grundvallar. En byrjunin er býsna misjöfn milli áa.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |