Laxá í Dölum var opnuð í morgun. Sami hópurinn hefur opnað hana í tíu ár samfellt núna og var haldið upp á það með eftirminnilegum hætti. Brauðterta í sverari kantinum var í morgunmat með tilheyrandi kertum til að blása á.
Á mjög svipuðum tíma settu Þórir Örn Ólafsson og Harpa Hlín Þórðardóttir í góða laxa. Annars vegar í 76 cm í Króknum og vildi Collie Dog og hins vegar í 88 cm í Mjóhyl sem stóðst ekki rauðan Franceskón. Þórir Örn var hins vegar á undan að setja sína mynd á facebook og það er það sem skiptir máli í dag. Hann er því skráður fyrir fyrsta laxinum í Laxá í Dölum sumarið 2023.
Harpa Hlín fékk eins og áður segir lax um svipað leyti og var það í Mjóhyl. Tveir góðir laxar misstust snemma um morguninn og var það bæði í Dönustaðagrjótum og Höskuldsstaðastrengjum.
Hópurinn sem opnar Dalina var að mæta í tíunda skipti og því var fagnað með brauðtertu sem skreytt var meðal annars með sex gjöfulustu flugunum úr Kristnapolli í gegnum árin hjá opnunarhollinu. Stefán Sigurðsson fékk þann heiður að blása á kertin tíu. „Hann er sjúkur í brauðtertur,“ sagði Sara Pétursdóttir sem tók að sér fimmta árið í röð að útbúa enn eina majonesveisluna fyrir hópinn.
Laxá er í fínu vatni en það heldur betur volgnaði þegar leið á morguninn og var hiti kominn í 22 gráður yfir miðjan daginn.
Fiskur sást á öllum svæðum og ljóst að nokkuð er síðan þeir fyrstu gengu í Dalina. Samkvæmt fiskifræðingum er Laxá i Dölum sú á sem á hvað mest inni og hafa þeir varfærnu menn sagt að búast megi við því að áin fari í tvö þúsund laxa þegar aðstæður verða réttar. Ágæt sumarveiði í Dölunum telst vera í kringum þúsund laxar.
Brauðtertan sem var ákveðinn hápunktur í opnun í morgun inniheldur: Skinku, aspas, egg og Gunnars-majónes. Þá var notaður slatti af jarðarberjum að sögn Þóris Ólafssonar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |