Stóra – Laxá í Hreppum stóð undir nafni í opnun. Sannkölluð stórlaxaopnun. Opnunarhollið byrjaði að veiða 21. og lauk veiðum í gær. Sautján laxar komu á land og af þeim voru fjórir sem mældust yfir 90 sentímetrar. Tveir þeir stærstu voru 98 og 99 sentímetrar. Að auki veiddust svo tveir sem voru 93 sentímetrar.
Finnur Harðarson sem er í forsvari fyrir leigutaka, en jafnframt einn af landeigendum segist hæstánægður með opnunina. „Ég komst ekki sjálfur að veiða. Ég var að klára veiðihúsið ásamt góðu fólki. En það var mikil hreyfing á fiski og menn komu að hyl sem var með fullt af fiski og svo einhverjum klukkutímum síðar var kannski bara einn eftir,“ sagði Finnur í samtali við Sporðaköst.
Veiðin var svipuð á báðum svæðum, en sú breyting hefur orðið á, eins og flestir veiðimenn vita að nú er ekki lengur talað um svæði 1 til 4, heldur efra og neðra. Veiðistaðir sem gáfu fiska voru meðal annars, Stekkjarnef, Bergsnös, Flatarbúð, Heimahyljir, Hólambreiða og Katlar.
Efra svæðið gaf níu fiska og það neðra átta. Hollið sem naut þess að opna Stóru – Laxá var blandað. Eldri Bretar mönnuðu nokkrar stangir og hörku öflugir Íslendingar hinar. Finnur hafði sérstaklega orð á því að honum hefði þótt vænt um að Bretarnir tók fimm laxa í svokölluðu Kötlum sem áður tilheyrði svæði þrjú.
Aðspurður um þá flugu sem gaf bestu veiðina svaraði hann að vörmu að það hefði verið Valbeinn, hálf tomma.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |