Reynist innistæða fyrir bjartsýninni?

Tekist á við lax í Jöklu. Leiðsögumaðurinn tilbúinn með háfinn. …
Tekist á við lax í Jöklu. Leiðsögumaðurinn tilbúinn með háfinn. Þessi kom á land en þeir hafa margir sloppið. Ljósmynd/Þröstur

Nú er að reyna á þá miklu bjartsýni sem ríkti meðal veiðimanna og rekstraraðila laxveiðiáa á NA–horni landsins fyrir komandi veiðitímabil. Hógværustu menn í greininni gengu svo langt að lýsa yfir „mikilli bjartsýni.“ Einkum voru menn að horfa til Hofsár og Selár í Vopnafirði. Tölur og hagvísar um framgang komandi laxakynslóða voru góðar og jafnvel svo að menn voru með stórar yfirlýsingar.

Nú er raunveruleikinn að banka upp á. Laxinn mætti snemma í Selá en þar er hægt um vik að skyggna og sjá laxa. Elstu menn mun vart eftir því að hann hafi verið kominn svo snemma í Selá eins og gerðist nú í vor. En það er eitt að stórlaxinn komi snemma. Smálaxinn sem kemur síðar er sá þáttur sem heldur uppi tölunum.

Þröstur Elliðason, til vinstri með Joseph frá Spáni. Fyrsti laxinn …
Þröstur Elliðason, til vinstri með Joseph frá Spáni. Fyrsti laxinn sem veiðist ofan Hólaflúðar svo snemma veiðitíma enda brosa þeir félagar sínu breiðasta. Ljósmynd/Strengir

Veiðin í Hofsá byrjar vel og hafa veiðimenn verið að sjá fisk á öllum svæðum en mest hefur veiðin verið á efstu svæðunum. Nokkuð breyttar reglur eru í Hofsá og hefur stöngum verið fækkað úr sjö í sex. Þar er nú komin sú regla að veiðimenn verða að vera með leiðsögumann með sér. Svokölluð „gædaskylda.“ Þetta leiðir af sér að verð fyrir stangardag hækkar hressilega frá síðasta sumri. Hofsá er nú komin í flokk þeirra áa sem eru ekki á færi nema vel efnaðra að veiða. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Six Rivers Island sem leigir og rekur Hofsá hefur oft rætt þessa stöðu og segir að hann skilji vel að einhverjir séu ósáttir en þetta sé einfaldlega sú vara sem Six Rivers er að bjóða upp á.

Í Hafralónsá sáu menn fiska snemma og þar á bæ ríkir einnig mikil bjartsýni. En viðmiðin eru breytt. Hvað er til að mynda gott veiðiár í Selá? Þar er búið að setja á reglu þannig að veiðimenn mega bara landa fjórum löxum á vakt. Eftir það er veiði lokið. Það hefur sýnt sig að veiðin verður jafnari en að sama skapi koma ekki stóru dagarnir. Þá fara menn meira að horfa á tölur í laxastigum en raunverulegar veiðitölur. Hversu margir laxar eru gengnir upp fyrir hinn eða þennan foss. Gefur vissulega ágæta mynd af magni fiska í viðkomandi á.

Laxi sleppt í Jöklu. Neil Robertson frá Bretlandi fékk þennan …
Laxi sleppt í Jöklu. Neil Robertson frá Bretlandi fékk þennan fallega hæng. Ljósmynd/Strengir

Jökla er opnuð og byrjar ágætlega. Fiskur er þar kominn upp fyrir Hólaflúð sem er einn af lykilveiðistöðum árinnar. Það hefur ekki gerst svo snemma að sögn Þrastar Elliðasonar, leigutaka. Veiðimenn sem eru þar í opnunarholli eru komnir með tíu laxa á land eftir tvo daga en þeir eru að veiða á fjórar stangir. „Þetta lítur vel út og við erum búnir að missa slatta. Það er mjög ánægjulegt að við skulum vera búnir að veiða lax ofan við Hólaflúð. Það hefur ekki gerst fyrr í júní, svo ég muni eftir,“ sagði Þröstur í samtali við Sporðaköst í morgun.

Smáflugur og hitch hafa verið að gefa best í Jöklu til þessa. Þar eru nú við veiðar veiðimenn frá Spáni og Bretlandi og hafa þeir misst átta fiska segir Þröstur og brosir sínu breiðasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert