Af opnunarhollum yfir meðallagi

Allir voru sáttir í opnun í Húseyjarkvísl í Skagafirði. Guðmundur …
Allir voru sáttir í opnun í Húseyjarkvísl í Skagafirði. Guðmundur Jörundsson og Gunnar Örn Petersen tóku börnin með í fyrsta laxveiðitúr sumarsins. Þau eru Dimmblá Guðmundsdóttir, Helga Petersen og Jörundur Örvar Guðmundsson. Laxinn er tekinn við Saurbæjarbrú, 82 cm hrygna á Black Sheep númer 12. Ljósmynd/GÖP

Það er alltaf áhugavert að heyra hvernig opnunarhollum í hinum ólíku laxveiðiám gengur. Opnun í Húseyjarkvísl og Hofsá skiluðu veiði sem er vel yfir meðallagi þegar kemur að opnun í þessum ám.

Í Húseyjarkvíslinni landaði opnunarhollið ellefu löxum og er það vel yfir meðaltali síðustu ára að sögn Gunnars Petersen sem var við veiðar í hollinu. „Já, þetta var framar vonum. Mest var af fiski á efsta svæðinu en við fundum nokkra fiska í göngu á neðri svæðunum líka,“ sagði Gunnar í samtali við Sporðaköst.

Flestir fiskarnir tóku Collie Dog en sá stærsti, 85 sentímetra hrygna, tók bláa Metallicu númer 14 í Flathyl. Metallica og sérstaklega sú bláa er fluga sem er vel þess virði að gefa gaum og reyna í næstu laxveiðiferð. Hún hefur gefið þá marga nú í upphafi sumars.

Albert Jónsson fékk þennan verklega 90 sentímetra hæng á hitchaða …
Albert Jónsson fékk þennan verklega 90 sentímetra hæng á hitchaða einkrækju í Nethyl í Hofsá í opnuninni. Þessi er brakandi ferskur. Ljósmynd/SRI

Annars var stærðin á fiskinum í kvíslinni á bilinu 73 til 80 sentímetrar.

Hofsá í Vopnafirði byrjaði vel og veiddi opnunarhollið 21 lax. Athygli vekur einnig að fyrstu smálaxarnir veiddust og eru þeir mættir snemma. Sá rómaði veiðistaður Nethylur gaf frábæra veiði og þar á meðal tvo níutíu sentímetra laxa.

Ein af fjölmörgum ástæðum fyrir bjartsýni um gott gengi Hofsár í sumar er sú staðreynd að þar var mikið af smálaxi í fyrra sem veit á að tveggja ára laxinn, stórlaxinn á að vera sterkur sumarið á eftir. Seiðatölur og tölur yfir útgöngu seiða í Hofsá hafa líka verið mjög góðar og ef eitthvað er að marka þær tölur á smálax að verða sterkur í Hofsá í sumar.

Gunnar Örn var sáttur með opnunina í Húseyjarkvísl og landaði …
Gunnar Örn var sáttur með opnunina í Húseyjarkvísl og landaði hollið ellefu löxum. Ljósmynd/Guðmundur Jörundsson

Allt bendir því til þess að áin sé að jafna sig eftir flóðin miklu árin 2013 og 2014 þegar margir veiðistaðir eyðilögðust og seiðabúskapur árinnar laskaðist mikið. Í kjölfarið fylgdu ár þar sem veiðin var dræm. Síðasta sumar fór Hofsá í rúmlega 1.200 laxa og er það besta veiði frá árinu 2007. Sumarið 2006 skilaði Hofsá tvö þúsund löxum og árin þar á undan skilaði hún mjög góðri veiði og var oft nálægt tvö þúsund löxum. Til samanburðar voru árin eftir flóðin einungis að skila veiði frá fimm hundruð til sjö hundruð löxum á sumri. En nú horfir þetta til betri vegar og Hofsá virðist vera að finna sitt gamla form. Opnun nú bendir til þess að sumarið kunni að verða mjög áhugavert í Vopnafirði þegar kemur að laxveiði.

Svo eru aðrar ár þar sem opnun var afskaplega róleg. Þannig veiddist ekki lax í opnun í Hrútafjarðará þrátt fyrir að veiðimenn kæmu auga á nokkra laxa. Hrútafjarðará er hins vegar komin á blað núna og hefur gefið nokkra fiska.

Svipuð staða er í Laxá í Dölum. Þar byrja hlutirnir rólega. Eftir spennandi morgun í opnunarhollinu kom í ljós að lítið er gengið af laxi í ána. Bíða verður næsta stórstreymis ef að líkum lætur þar til Laxá tekur við sér.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert