Nokkur mynd er að koma á laxveiðina í Borgarfirði, á meðan að aðrir landshlutar eru enn í vorveiðifasa. Norðurá í Borgarfirði sem er ein þeirra áa sem jafnan er horft til, er að skila betri veiði en í fyrra. Er það mál veiðimanna sem Sporðaköst hafa rætt við að mikið sé af fiski á öllu svæðinu neðan við Laxfoss. Tölur fyrir nýliðna viku sýna líka ágæta veiði. Samtals veiddust 118 laxar í síðustu viku í Norðurá. Hún hafði í gær gefið 246 laxa. Á sama tíma í fyrra voru skráðir 206 laxar í Norðurá, þannig að þetta er nokkur bati milli ára.
Það er áhugaverð staðreynd að Urriðafoss í Þjórsá lendir í öðru sæti en yfirleitt hefur það veiðisvæði verið á toppi listans fyrri hluta veiðitímans. Nú er veiðin þar töluvert minni en undanfarin ár.
Allt önnur Borgarfjarðarmynd teiknast upp þegar litið er til Þverár/Kjarrár, samanborið við Norðurá. Í Þverá/Kjarrá eru komnir á land 118 laxar og er það mun minni veiði en á sama tíma í fyrra. 29. júní 2022 voru skráðir 211 laxar á svæðinu. Þetta vekur nokkra furðu þegar haft er í huga hversu stutt er á milli þessara tveggja áa og báðir stofnar hefja sína heimferð um Hvítá í Borgarfirði, hvort sem áfangastaður er Norðurá eða Þverá.
Áfram í Borgarfirðinum. Langá er á pari við það sem veiddist í fyrra. Komnir 37 laxar í bók sem er nánast það sama og var í fyrra og sumarið 2021.
Í Húnavatnssýslunum eru Miðfjarðará og Víðidalsá nánast á pari, báðar með rétt tæplega fimmtíu laxa. Það telst góð veiði í þeirri síðarnefndu en aftur á móti flokkast sem róleg byrjun í þeirri fyrrnefndu. Miðfjarðará var með 68 laxa á þessum tíma í fyrra en Víðidalsá með 16 laxa.
Bæði Vatnsdalsá og Laxá á Ásum byrja rólega en Blanda er mun betri en í fyrra. Nú eru komnir þar 69 laxar en voru 40 á sama tíma í fyrra.
Þær aflahæstu. Í fyrsta dálki er fjöldi laxa veiddur og miðast sú tala við 28. júní. Í dálki tvö er svo vikuveiðin. Þriðji dálkurinn, innan sviga, er svo fjöldi laxa á sama tíma í fyrra. Tölur fyrir þennan lista yfir 10 aflahæstu árnar eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga angling.is og einnig af angling iQ appinu þar sem rafræn skráning á veiðinni fer fram. Upplýsingar um stöðuna í fleiri ám má nálgast þar.
Norðurá 246 118 (206)
Urriðafoss 225 59 (341)
Þverá/Kjarrá 118 41 (211)
Haffjarðará 93 64 (123)
Blanda 69 40 (40)
Hítará 53 24 (43)
Miðfjarðará 49 24 (68)
Víðidalsá 48 26 (16)
Eystri-Rangá 42 30 (13)
Stóra-Laxá og Brennan deila svo 10. sætinu með 39 laxa hvor á. Eins og áður segir er hægt að nálgast upplýsingar um fleiri ár inni á angling.is.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |