Vagn Ingólfsson handverksmaður ákvað að skera út stórlax eins og þeir gerast flottastir á Íslandi. Eftir hátt í sex hundruð vinnustundir er verkið tilbúið af hálfu listamannsins en eftir er að sprauta fiskinn og verður það gert í Bandaríkjunum síðar í sumar, af manni sem sérhæfir sig í að mála fiska. Von er listaverkinu fullbúnu og endanlegu til landsins síðla september. Sporðaköst ræddu við útskurðarmeistarann í tilefni þess að verkinu er lokið af hans hálfu.
Athygli vekur að Vagn hefur ekki lært útskurð eða menntað sig í þeirri grein. Hann er sjálfmentaður og eins og hann orðar það sjálfur. „Ég hef svona fiktað mig áfram í þessu í gegnum árin.“
„Kveikjan að þessu var í júlímánuði 2021 en þá átti ég leið í Veiðihornið til Óla og Maríu. Væntanlega var ég að kaupa einhverjar veiðigræjur. Óli hafði verið eitthvað að fylgjast með handverkinu mínu á facebook og hann nefnir þá við mig hvort ég treysti mér í að gera 20 plús punda lax. Mér fannst þetta stór og spennandi áskorun sem ég varð strax spenntur fyrir. Fljótlega eftir þessa heimsókn í Veiðihornið tók ég þá ákvörðun að þetta væri verðugt efni að glíma við og fór að kynna mér málið,“ upplýsir Vagn um aðdraganda málsins.
Hann valdi sér mynd af fallegum laxi og lét stækka hana þannig að fiskurinn væri 103 cm að lengd. Hann komst síðar að því að ein mynd væri hvergi nærri nóg til að ráðast í verkið.
Í byrjun október 2021 festi hann kaup á hentugum við í Efnissölunni og fór þá að byrja að saga útlínur og í framhaldi af því að grófmóta fiskinn.
„Ég komst fljótlega að því að mig vantaði eitthvað miklu meira til að komast lengra og komst í samband við sænskan mann sem er gríðarlega flinkur og gerir afburðar fallega fiska bæði úr viði og frauðplasti. Hann sagði mér að ein mynd til að vinna eftir væri alls ekki nóg enda hef ég séð að hann er með myndir af nánast hverju smáatriði. Í ferlinu hefur farið mikill tími í að finna myndir af öllum smáatriðum til að vinna eftir.“
Vagn átti í miklum samskiptum við sænska útskurðarmeistarann sem gagnrýndi og hrósaði í bland og leiddi það Vagn á nýjar brautir. Síðar komst hann svo í samband við hinn bandaríska Danny Harris sem Vagn segir mikinn snilling þegar kemur að gerð fiska og þá ekki síst að sprauta þá í réttum litum og þannig gæða þá lífi.
„Ég var alltaf ákveðinn í að brenna allt hreistur í búkinn og pantaði sérstök járn til þess að utan og fór svo að æfa mig með þau á öðrum spýtukubbi úr sama efni og fór að senda myndir af útkomunni á þá. Þeir voru báðir ósáttir með útkomuna,“ rifjar hann upp.
Úr varð að Danny smíðaði sérstök verkfæri fyrir Vagn til að brenna hreistrið í viðinn. Ekki tókst betur til en svo að járnin týndust og varð Danny að endurtaka leikinn. „Á endanum komust þau í mínar hendur. Þá tók við mikil og vandasöm nákvæmnisvinna sem verður bara að takast í fyrstu atrennu. manni leyfist ekki að gera mistök þarna og þetta kallar á mikla þolinmæði og tekur langan tíma. Eftir að hafa unnið við gerð þessa lax í tuttugu mánuði í frítímum þá er hann nú fullbúinn frá minni hendi. Ég hef í mínu handverki aldrei haldið utan um það hvað margir tímar fara í svona verkefni en ég er hins vegar handviss um að í þessu verki liggja að minnsta kosti 5 - 600 klukkustundir.“
Nú er Vagn búinn með þá vinnu sem hann getur unnið og þarf nú að bíða fram í ágúst að Danny Harris getur tekið við gripnum og mun sprauta hann.
„Við ætlum að hafa hann eins og nýgenginn vorlax, væntanlega 22 - 24 pund miðað við lengd og ummál. Öll þessi samskipti við þessa erlendu menn sem hafa staðið í heilt ár og skipta eflaust hundruðum hefðu verið mér ómöguleg, þar sem ég er ekki sleipur í enskunni en með ómetanlegri hjálp Bergþórs Jóhannessonar vinar míns hvað varðar að þíða og skrifa og jafnvel eiga löng símtöl við þá, var þetta hægt hjá mér. Er ég honum mjög þakklátur fyrir þá ómetanlegu aðstoð.“
Ólíkt því sem margir gera sem skera út fiska í við þá notaði Vagn engin rafmagnsverkfæri. Alþekkt er að nota fræsara og annað þess háttar sem flýtir fyrir. En hann tók þetta alla leið og notaði engin slík verkfæri. Erfitt er að gera sér í hugarlund þessa miklu vinnu en bara að skera út eyruggana og hafa þá útstandandi á fiskinum var mikil vinna.
Vagn segist orðinn mjög ánægður með fiskinn en hann mun ekki sjá endanlega útkomu fyrr en hann kemur úr sprautun og það væntanlega seinnipartinn í september. „Það verður spennandi dagur,“ segir Vagn að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |