Byrjunin á þessu laxveiðisumri er afar áhugaverð og fjölmörg mjög jákvæð teikn eru á lofti. Norðurá fer fremst í flokki með öfluga byrjun og skilaði hún þrjú hundruð löxum í júní. Margir eru farnir að gæla við að hún muni ná tvö þúsund löxum í sumar. Það gerðist síðast sumarið 2015.
Fleiri ár eru að byrja á jákvæðum nótum. Straumfjarðará var í fyrra með 18 veidda laxa 1. júlí í fyrra. Í gær voru hins vegar komnir á land 31 lax. Þessar tölur tala sínu máli og margar ár eru á þessum nótum. Smálaxinn er víða farinn að láta sjá sig í nokkru magni á Vesturlandi og eykur það mönnum enn bjartsýni. Stór straumur er á næstu dögum og verður áhugavert að sjá hverju hann skilar.
Óttar Finnsson og Daníel Njarðarson eru leiðsögumenn og staðarhaldarar við Straumfjarðará. „Við byrjuðum tveimur dögum seinna en í fyrra og fyrstu dagarnir voru rólegir en svo sprakk þetta út og þriðja hollið var með sautján laxa á fjórar stangir. Það er töluvert af fiski í henni og hann er dreifður um alla á og það er líf á öllum svæðum,“ upplýsti Óttar Finnsson í samtali við Sporðaköst. Þó að samanburðurinn við árið í fyrra sé mjög hagstæður var veiðisumarið 2022 í Straumfjarðará fjarri því að vera lélegt. Fjórar stangir skiluðu þá 374 löxum sem á hennar mælikvarða er næst best á síðan 2015.
Fyrstu laxarnir veiddust í Soginu í gær.Styrmir Gauti Fjeldsted landaði fyrsta laxinum sem við fréttum af og var það smálax í Kúagili á Alviðrusvæðinu. „Jú. Maður þarf alveg að þenja sig þarna til að ná út á hann. Ég var með Collie Dog áltúbu og hann hrifsaði í hárinu fljótlega eftir að hún lenti en elti hana greinilega og negldi hana nokkru síðar í rekinu. Ég er búinn að sjá laxa stökkva hér og sá svo einn mættan á Ölduna en hann stoppaði stutt,“ sagði Styrmir Gauti í samtali við Sporðaköst.
Laxar veiddust einnig í Bíldsfelli og Ásgarði í Soginu í gær. Þetta er í fyrra fallinu þar en er eitt af þessum jákvæðu teiknum sem vísað var til í upphafi. Horfi menn til NA–lands er það sama uppi á teningnum. Góð byrjun og smálaxinn
Gott laxveiðisumar er langþráð meðal veiðimanna. Fæstir þora að spá því upphátt en hugsa frekar sitt. Sporðaköst ætla að leyfa sér að kasta allri viðkvæmni fyrir róða og spá hér með laxveiðisumri sem verður vel yfir meðallagi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |