Í frekar svölu veðri en að öðru leiti í kjörskilyrðum kastaði Hafþór Bjarni Bjarnason Collie Dog áltúbu á veiðistaðinn Flesjufljóti í Hítará í gærkvöldi. Flugan var varla lent þegar fiskur negldi hana. En gleðin var skammvinn. Allt laust eftir örstutt kynni.
„Ég vildi ekki gefast upp. Ákvað að halda áfram þarna og fyrir valinu varð hitch. Ég hugsaði með mér, nógu smátt. Endaði með númer sextán. Í þriðja eða fjórða kasti kom þessi svakalegi krókódílakjaftur og glúbb,“ upplýsir Hafþór Bjarni um leið og hann hermir eftir hljóðinu þegar tröllslegur kjafturinn small aftur með örfluguna og hvarf í hylinn.
Fyrsta viðbragð laxins var ofsafengin roka sem fór nánast með alla línuna. Veiðimaðurinn þurfti að hafa sig allan við á hlaupum svo ekki reyndi á hnútinn sem er síðasta von veiðimannsins. Hafþór Bjarni náði svo línunni að mestu til sín og jafnvægi komst á.
Upphófst nú mikil barátta þar sem lengi vel var tvísýnt hvor var við stjórnvölinn maður eða fiskur. Eftir hlaup og tog og angist lagðist hængurinn. Lá og hreyfði sig ekki. „Mér fannst þetta vera alveg endalaust. Hringdi í pabba og spurði hvernig best væri að bera sig að. Hann sagði mér bara að þreyta hann i rólegheitum. Reyna að koma honum á hreyfingu og þreyta hann. Ég hringdi upp í hús og sagði þeim að ég væri með tuttugu pundara. Menn í húsi stukku til og mættu með háfinn,“ sagði hinn átjána ára gamli veiðimaður sannfærður um að hann væri með hundrað plús sentímetra fisk á hinum endanum.
Svo kom að því að þessi gerðarlegi hængur rann inn í háfinn. Hann var mældur og stóð 95 sentímetra. „Geggjaður fiskur. Þetta er minn langstærsti og ég bara panikkaði og öskurgrenjaði af gleði. Vá hvað þetta var magnað. 95 eða hundrað sentímetrar skiptir ekki máli. Hann var svo geggjaður og glæsilegur.“
Sporðaköst óska Hafþóri Bjarna til hamingju með þennan magnaða fisk úr Hítará og það þarf vart að taka það fram að þetta er sá stærsti sem veiðst hefur í Hítará það sem af er sumri. Hann hefur verið í veiðileiðsögn í ánni síðustu daga og gengið vel. Aðstoðaði meðal annars við þrjá maríulaxa á dögunum.
Áin hefur heldur betur byrjað vel og ekki hefur verið vöntun á tveggja ára fiski og töluvert komið af 85 til 90 plús stórlöxum. Svo kom þessi drjóli, eins og einn veiðimaður orðaði það.
Kunnugir veiðimenn segja að byrjunin í Hítará sé afskaplega góð og muna menn ekki efstir svo öflugum göngum af tveggja ára fiski í ána. Straumurinn sem nú fer í hönd er afskaplega spennandi og verði hann í takt við byrjunina má búast við mögnuðu sumri í Hítará og fleiri ám, en bíðum átekta.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |