Athyglisverðar vendingar í laxveiðinni

Veiðimaðurinn Gerry Graville með silfurbjartan lax úr Blöndu, sem hann …
Veiðimaðurinn Gerry Graville með silfurbjartan lax úr Blöndu, sem hann veiddi í vikunni. Ljósmynd/Starir

Það er sagt að vika í pólitík sé langur tími. Það sama á við í laxveiðinni. Eins og á hverjum fimmtudegi birtir Landssamband veiðifélaga tölur yfir vikuveiði í öllum helstu laxveiðiám landsins. Tölur dagsins eru um margt athyglisverðar og sýna nokkrar vendingar í laxveiðinni.

Húnavatnssýslurnar eru köflóttar en um margt athyglisverðar. Blanda er að skila mun meiri veiði en í fyrra, enda var árið þá afleitt. Batinn er hins vegar ánægjulegur og töluvert magn af laxi er að ganga í Blöndu. Hún er nú komin með 119 laxa á móti 75 í fyrra. Það eru tölur sem tala sínu máli. Víðidalsá og Vatnsdalsá eru báðar að skila töluvert betri veiði en í fyrra. Miðfjarðará sem byrjaði rólega er að ná vopnum sínum og styttist í að hún verði komin á svipaðan stað og í fyrra í samanburði milli ára. Laxá á Ásum er enn ekki að skila þeirra veiði sem menn vonast eftir. Nú er hins vegar stórstreymt og þá getur allt gerst.

Borgarfjörðurinn skilaði ágætri veiði í síðustu viku og þar stóð upp úr Þverá/Kjarrá með mestu vikuveiðina eða 179 laxa. Norðurá skilaði minni veiði í nýliðinni viku en vikunni þar á undan. Veiðifólk sem vel þekkir til segir mikið magn af laxi í ánni og straumurinn sé að skila hressilega af smálaxi. Haffjarðará er aðeins undir veiðinni sem hún hafði gefið á þessum tíma í fyrra en þar getur skýringin verið hvernig stendur á títt nefndum straumi.

Annar breskur veiðimaður, Tony Lawson passar sig á að lyfta …
Annar breskur veiðimaður, Tony Lawson passar sig á að lyfta fiskinum ekki of mikið úr vatninu. Bara rétt í smá stund fyrir myndatöku og svo niður aftur. Ljósmynd/Starir

Elliðaárnar hafa tekið á móti margföldu magni af laxi miðað við sama tíma í fyrra en veiðitölurnar eru töluvert undir því sem þá var. Veiðin nú er komin í hundrað laxa en var á sama tíma í fyrra 166. 

Ef við lítum til Suðurlandsins þá er það ekki síður köflótt en Norðurlandið. Eystri-Rangá er að byrja mun betur en í fyrra en því er öfugt farið í Ytri-Rangá þar sem veiðin byrjar ekki jafn vel og í fyrra. En þar getur smálax breytt gangi mála. Í góðum árum mætir smálaxinn í mun meira magni en tveggja ára laxinn sem flokkast sem stórlax. Munurinn liggur í því að smálaxinn dvelur eitt ár í sjó og kemur til baka á bilinu 68 til 50 sentímetrar á meðan að stórlaxinn dvelur tvö ár í sjó í fæðuleit og kemur til baka sem áttatíu plús sentímetrar. Stórlaxinn er fyrr á ferðinni en smálaxinn mætir svo þegar nokkuð er liðið á sumar. Stórar smálaxagöngur hafa einmitt sést á SV-horninu undanfarna daga. 

Klassísk Blöndumynd. Brúin í baksýn og Heath Payne lyftir fallegri …
Klassísk Blöndumynd. Brúin í baksýn og Heath Payne lyftir fallegri nýgenginni hrygnu. Blanda hefur byrjað mun betur en í fyrra. Ljósmynd/Starir

Þær aflahæstu. Í fyrsta dálki er fjöldi laxa veiddur og miðast sú tala við 5. júlí. Í dálki tvö er svo vikuveiðin, þar sem hún er þekkt. Þriðji dálkurinn, innan sviga, er svo fjöldi laxa á sama tíma í fyrra. Tölur fyrir þennan lista yfir 10 aflahæstu árnar eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga, angling.is og einnig af angling iq appinu þar sem rafræn skráning á veiðinni fer fram. Upplýsingar um stöðuna í fleiri ám má nálgast þar.

Norðurá               348          102        (338)

Urriðafoss            323           98         (451)

Þverá/Kjarrá        297          179        (381)

Haffjarðará          166           73         (205)

Blanda                 119           50          (75)

Eystri-Rangá         113            71         (69)

Selá í Vopnafirði    109            --          (55)

Elliðaárnar             99             --          (166)

Miðfjarðará            95            46         (109)

Ytri-Rangá og         94             --         (207)

vesturb. Hólsár                  

Skammt undan eru svo Víðidalsá, Hítará og Langá allar í kringum áttatíu laxa. Eins og áður segir er hægt að nálgast upplýsingar um fleiri ár inni á angling.is.    

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka