Einarsson verður hluti af Nám vörulínu

Steingrímur er með veiðidellu á svo háu stigi að hann …
Steingrímur er með veiðidellu á svo háu stigi að hann stofnaði fyrirtæki utan um draum sinn, að smíða fluguveiðihjól. Einarsson hjólin eru nú orðin hluti af alþjóðlegri vörulínu. Það er eitthvað magnað við þessa ljósmynd sem Golli veiðifélagi hans og veiðiljósmyndari með meiru tók. Ljósmynd/Golli

Nám Products hefur keypt vörumerki Einarsson Fly Fishing og munu hér eftir sjá um sölu og dreifingu á Einarsson fluguveiðihjólunum um allan heim. Af þessu tilefni skrifaði Steingrímur Einarsson upphafsmaður Einarsson hjólanna yfirlýsingu á Facebooksíðu sína. „Það má segja að það séu blendnar tilfinningar þessa dagana sem bærast með mér en á sama tíma er ég afskaplega sáttur við kaupandann. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu vinum og viðskiptavinum sem hafa stutt mig í gegnum tíðina en nákvæmlega fyrir 19 árum voru fyrstu hjólin smíðuð. TAKK!,“ skrifaði Steingrímur.

Nám Products, kaupandinn tilkynnti þessi kaup með stolti og heita því að breiða út boðskap Einarssons hjólanna sem þeir segja að smelli eins og flís við rass í þeirra vörulínu þegar kemur að fluguveiðibúnaði.

Steingrímur segist hafa mikla veiðidellu og hreinlega elskar fluguveiði og útiveru. Aðspurður um hvað leiddi til þess á sínum tíma fyrir rétt tæpum tveimur áratugum að hann fór að hanna og framleiða fluguveiðihjól segir hann.

„Það var bara dellan sem ýtti manni í þetta. Ég er alinn upp við fluguveiði. Við stofnum félag vestur á Ísafirði, ég og 3X technology og kölluðum það Rennex. Ég er lærður rennismiður og við keyptum vélar sem voru ætlaðar í smíði á íhlutum fyrir 3X.

“Eigendur 3X sem voru þá, eru líka með delluna og ég sá þarna skemmtilegt tækifæri til að gera eitthvað fleira en bara að hnýta flugur. Þannig að við ákváðum að smíða fluguveiðihjól og árið 2004 voru fyrstu sjö hjólin smíðuð, en sérstaklega ber að þakka honum Konna sem var starfsmaður hjá mér á þessum árum en hann átti stóran þátt í smíði fyrstu hjólanna.“

Það sumar fór Steingrímur með eitt þessara veiðihjóla í Svalbarðsá og tók það til kostanna.

7plus hjólið segir Steingrímur að sé uppáhalds alhliða hjólið sem …
7plus hjólið segir Steingrímur að sé uppáhalds alhliða hjólið sem hann hannaði. Ljósmynd/Einarsson

Hvernig gekk það og hvernig var spennustigið?

„Ég lenti í þvílíkum ævintýrum í þessum túr og einmitt með fyrstu útgáfu af hjólunum fór ég með þann draum að setja í þann stóra. Það gerðist og það var eiginlega tvöföld spenna sem myndaðist. Adrenalínið við að setja í fisk, og það stórann, og hugsunin um hvort hjólið myndi halda var mikið. Þess utan var ég með hitch túbur sem ég hafði hnýtt og G.Loomis stöng sem Engilbert Jensen vinur minn setti saman fyrir mig.”

Allt fór þetta vel og Einarsson hjólin eru í notkun víða um heim. Steingrímur segir að vitanlega hafi orðið uppfærslur, aðallega á mekaníkinni en hjólin eru enn byggð í grunninn á fyrstu hönnun.

Er flókið að hanna fluguveiðihjól?

„Kannski ekki svo mjög sá hluti sem snýr að smíðinni og virkninni þó það sé auðvitað ekki erfiðleika laust. Það sem hefur verið erfiðast fyrir mig er að hanna útlitið á hjólinu. Það er alveg höfuðverkur. Það eru til fjölmörg hjól af öllum gerðum og stærðum en skurðurinn eða útlitið á hjólinu er það sem margir keppast við að gera sem flottastan og öðruvísi. Það var mesta áskorunin fyrir mig.”

Með afabarn í veiði. Þau munu njóta góðs af sölunni …
Með afabarn í veiði. Þau munu njóta góðs af sölunni á fyrirtækinu. Steingrímur grínast sjálfur með þetta en viðurkennir að mikill tími hafi farið í þessa vinnu alla. Ljósmynd/Steingrímur

Á þessum tæpu tuttugu árum, veistu hvað þú ert búinn að selja mörg hjól?

Steingrímur segist ekki vera með nákvæma tölu en giskar á að í kringum tíu þúsund hjól séu í notkun víðsvegar í heiminum.

Nafnið Einarsson, hvaðan kemur það?

„Við byrjuðum með nafniðWish sem var fjögurra blaða smára pæling en það nafn var aldrei alveg að virka fannst okkur. Danskir vinir mínir sem aðstoðuðu okkar á sínum tíma þegar við vorum að stækka komu með þessa hugmynd. Danir vinna mikið með eftirnöfn og þeir komu strax með nafnið Einarsson og það varð ofan á. Passlega skandínavískt líka.,“ hlær Steingrímur.

Hjólin eru völundarsmíð og vinna líka afar vel í fiski. …
Hjólin eru völundarsmíð og vinna líka afar vel í fiski. Tíu þúsund hjól hið minnsta eru í fórum veiðimanna um allan heim. Ljósmynd/Einarsson

En hvernig líður þér núna þegar þú ert búinn að selja fyrirtækið?

„Eins og ég hef sagt þá eru þetta blendnar tilfinningar en á sama tíma ákveðinn léttir. Þetta er búið að vera smá ströggl og mikil vinna með öðru. Ég minnkaði umsvifin fyrir nokkrum árum. Tók hjólin úr búðum og fór að selja beint til notanda. Það þýddi helmingi færri seld hjól en svipaða afkomu.“ Þessu fylgdi mikil vinna og á sama tíma hefur Steingrímur eignast barnabörn og hann viðurkennir að þá breytist áherslurnar.

Var þetta þess virði, þegar þú horfir til baka?

„Algjörlega. Ég stend eftir stoltur með þetta verkefni og er mjög sáttur.“

Fjárhagslega. Borgaði þetta sig?

„Nei, nei.“ Hann hlær. „Þessi bransi er erfiður. Það er hörð samkeppni og mikil verðteygni á þessari vöru. Að stofna nýtt vörumerki er gríðarleg vinna og það þarf sterkan bakhjarl, ekki síst fjárhagslega til að geta komið því af stað. Ég myndi ekki gera þetta aftur með sama hætti, en ef ég byggi að þeirri reynslu sem ég hef í dag og væri tuttugu árum yngri, þá væri það ekki spurning.“

Hann segist sleppa út úr þessu með skuldlaust fyrirtæki sem fór ekki á hausinn, þó mikið hafi gengið á í íslensku efnahagslífi á þessum tveimur áratugum, svo kemur inn einhver smá aur.

Þannig að hamingjusömustu aðilar í þessu viðskiptum er kannski bara barnabörnin?

„Ég gæti trúað því að það endi þannig að þau verði ánægðust og vonandi fjölskyldan öll sem þessi mikla vinna sem ég hef verið í hefur bitnað á.“

Steingrímur segist hafa verið upplýstur um framtíðaráætlanir Nám með Einarsson hjólin og honum líki þær vel. „Þeir voru búnir að vinna sína heimavinnu vel áður en þeir tóku ákvörðunina. Innan Nám eru mjög öflugt teymi á öllum sviðum en þá vantaði kannski þetta síðasta púsl og ég veit að þeir munu halda vörumerkinu á lofti.“

Sporðaköst óska Steingrími og afabörnunum til hamingju með þennan áfanga

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert