Nú þegar besti veiðitíminn í laxinum er runninn upp og útlendingar á einkaþotum í bland við stöndug íslensk fyrirtæki keppast við að komast í bestu árnar, gerast líka ævintýri á öðrum sviðum stangveiðinnar. Fiskar eru misjafnlega dýrmætir og þá er það ekki endilega sentímetra fjöldinn sem ræður ríkjum. Við fréttum af mögnuðu ævintýri hjá einum 3ja ára í Elliðavatni.
„Ég veiddi þennan fisk fyrir alla í fjölskyldunni,“ tilkynnti hann ömmu sinni í síma í lok veiðidags. Egill Óli Andrason Clausen er þriggja ára og hefur verið með óbilandi veiðiáhuga frá því hann fór fyrst að geta tjáð sig. Allar götur frá því hann sá myndir af afa og ömmu veiða út um allan heim hefur hann sagst vera veiðimaður og jafnvel kynnt sig þannig af fyrra bragði.
Á föstudag fór Egill Óli í veiðibúðina til afa og ömmu til að kaupa veiðidót ásamt pabba og eldri systkinum. þeim Þóreyju og Hafsteini. Áhuginn leyndi sér ekki þar sem helst þurfti að kaupa alla spúna og króka sem hugurinn girntist. Þegar heim var komið var farið að moka eftir ormum sem eftir langa leit fundust í garði nágranna. Ferðinni var heitið að Elliðavatni. Pabbi græjaði orm á krók og sá stutti kastaði út sjálfur með nýju veiðistönginni frá ömmu.
Andri sneri sér að eldri systkinum sem voru að gera sig klár þegar sá stutti kallaði, „Einhver fiskur stökk á flotholtið.“ Pabbi sem í þessu tilviki var líka nokkurs konar leiðsögumaður, hélt það væri fast eða flækja og var frekar rólegur að klára að græja stangir fyrir þau eldri. Það breyttist þegar hann sá að 3ja ára veiðimaðurinn var við það að landa þessum líka fallega urriða alveg sjálfur. Þessi fiskur var alveg ígildi hundraðkalls og ekki bara fyrir hinn unga veiðimenn heldur líka aðra fjölskyldumeðlimi.
Eftir veiðiferð var komið að því að gera að og flaka, elda bráðina og borða. „Ég veiddi þennan fisk fyrir alla fjölskylduna,“ sagði sá stutti og harðneitaði að pantaður yrði skyndibiti eins og vaninn er á mörgum íslenskum heimilum á föstudögum.
Hann á svo sem ekki langt að sækja veiðiáhugann hann Egill Óli, 3ja ára afa- og ömmustrákur Maríu og Óla í Veiðihorninu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |