Lítið hefur spurst til hnúðlaxa í íslenskum ám það sem af er sumir. Sjö slíkir eru staðfestir í Miðfjarðará og einn í Norðurá. Fjórir hafa veiðst í Hofsá og Selá í Vopnafirði. Við greindum frá tveimur slíkum sem veiddust um mánaðamótin í Norðfjarðará.
Margir óttuðust að sumarið 2023 yrði mikið hnúðlaxaár á Íslandi. Seiði hans hafa fundist í mörgum ám hér á landi og hann kemur á oddatöluárunum. Lífsferill hnúðlaxins er tvö ár og síðast sást hann hér sumarið 2021. Búist var við því að þessum framandi gesti myndi fjölga mikið í ár og gæti jafnvel orðið plága í einhverjum ám. Fram til þessa hefur lítið sést til hans.
Hvort að kuldakastið fyrir norðan hafi hægt á honum er erfitt að segja til um en fram til þessa hefur hann lítið gert vart við sig. Rafn Valur Alfreðsson sem er leigutaki Miðfjarðarár staðfestir að þar hafi veiðist sjö hnúðaxar fyrir skemmstu. „Þetta var mjög skrítið. Það veiddust þessir sjö einn daginn og allir neðarlega og svo höfum við ekki orðið vör við hann. Sjáum hann ekki þessa stundina.“
Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Six Rivers Iceland sem leigir og rekur Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá ásamt fleiri ám á NA horninu segir að þeir hafi veitt nokkra en ekki orðið mikið varir við hann. „Við erum að horfa upp á skemmtilega tíma í Selá og Hofsá þar sem gott magn af fiski er komið og sumarið lítur vel út. Fram til þessa höfum við ekki mikið orðið vör við hnúðlaxinn,“ sagði Gísli í samtali við Sporðaköst. Hann sagði að ástandið núna væri líkara því sem áður var þegar einn og einn hnúðlax villtist upp í árnar.
Athygli vekur að menn eru ekki að bóka hnúðlaxinn í rafrænu veiðibókina. Þar er þó undanteking á og bókaðir hafa verið fimm slíkir í Miðfjarðará í Bakkafirði. Sem stendur er hnúðlax meira en tíu prósent af veiðinni í ánni. 43 laxar hafa verið bókaðir á móti fimm hnúðlöxum.
Samkvæmt veðurspám er útlit fyrir svalt veður áfram fyrir norðan þó að hlýni heldur frá því sem menn hafa upplifað síðustu daga. Víða fór lofthiti yfir daginn ekki yfir sex gráður og til að fullkomna ástandið var rok og suddi.
En sem stendur er lítið að frétta af hnúðlaxinum og flestir veiðimenn vonast eftir því að það ástand vari sem lengst. En sumarið er bara rétt að byrja og þetta getur breyst hratt.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |