Sumum löxum liggur meira á en öðrum

Erlendur veiðimaður og Gary Champion leiðsögumaður, til vinstri, með lúsuga …
Erlendur veiðimaður og Gary Champion leiðsögumaður, til vinstri, með lúsuga smálaxinn. Í baksýn er Orustuhylur. Þessi lax var innan við sólarhring að ganga alla þessa vegalengd úr sjó. Ljósmynd/Miðfjarðará

Sumir laxar eru kröftugri en aðrir. Svona ofurlítið eins og hjá mannfólkinu. En við fréttum af einum í Miðfjarðará sem var ekkert að tvínóna við hlutina. Hann veiddist í Orustuhyl í Vesturá og var lúsugur. Almennt telja veiðimenn að laxalúsin detti af laxinum á sólarhring.

Þessi lax hafði sem sagt á innan við sólahring gengið upp Miðfjarðarána. Fundið ármótin upp í Vesturá og tekið strauið þangað upp. Fyrsta hindrun var Kistufoss. Því næst þurfti hann að ganga Kerafoss og skömmu síðar sjálfan Hlíðarfoss sem er býsna verkleg hindrun. Enn einn fossinn beið hans og næst var það Kollafoss. Því næst lá leiðin upp í Túnhyl en hann var ekki á því að dvelja þar nema skamma stund.

Grynningar sem taka við fyrir ofan Túnhyl eru laxinum erfiðar, sérstaklega þegar vatn hefur minnkað og þetta er langur kafli sem laxinn fer oft á tíðum að hluta til upp úr og þarf að finna sér holur til að detta inn í og nægilegt vatnsmagn til að komast leiðar sinnar. Alla þessa leið fór laxinn á um tuttugu klukkutímum. Hann var ekki búinn að vera lengi í Orustuhyl þegar hann sá eitthvert kvikindi í yfirborðinu sem myndaði einkennilega vaff rák rétt fyrir ofan legustaðinn þar sem hann hvíldi sig aðeins. Hann réðist á þetta kvikindi.

Veiðimaður sem staddur var við Orustuhyl ásamt leiðsögumanni hafði rétt áður kastað hitctúbu, með krók númer fjórtán. Laxinn kröftugi tók hitchið og var landað skömmu síðar. Veiðimaður og leiðsögumaður urðu steinhissa þegar þeir uppgötvuðu að þessi 63ja sentímetra lax var lúsugur og það svona ofarlega í Vesturá. Laxinum var sleppt og var hann hinn hressasti að sögn Gary Champion sem var leiðsögumaðurinn í þessu tilviki.

Gary er þaulvanur leiðsögumaður í Miðfjarðará til margra ára. Hér …
Gary er þaulvanur leiðsögumaður í Miðfjarðará til margra ára. Hér er hann við tökur í Sporðakastaþætti sumarið 2020. Ragnheiður Ragnarsdóttir er nýbúin að landa maríulaxinum sínum. Ljósmynd/FÞH

Sjálfsagt er þessi lax kominn fram í Rjúkanda sem er alla jafna efsti staður sem lax gengur á í Vesturá. Þar tekur svo við bið í tvo til þrjá mánuði eftir því að aðdragandi hrygningar hefjist.

Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki að Miðfjarðará segir þetta ekki einsdæmi og minnist þess að veiðst hefur lúsugur lax í Sandgilshyl sem er næsti staður fyrir ofan Orustuhyl. Þá hafa þeir einnig veitt lúsuga laxa ofan við Kambsfoss í Austurá, sem er ekkert smá ferðalag.

Síðustu þrjár veiðivaktir í Miðfjarðará hafa skilað 52 löxum á land. Það eru langbestu dagar sumarsins enda er nú kominn kjörtími í laxveiðinni. Töluvert er að koma af nýjum fiski og er það ánægjuefni en við erum nú á milli strauma. Næsta stórstreymi er ekki fyrr en eftir viku. Rabbi segir að sá straumur geti alveg skilað góðum göngum og hann hefur séð göngur fram í miðjan ágúst þegar laxinn er seinn fyrir. Kannski er það staðan í ár. Það má lengi halda í vonina og það er ekki fyrr en feita konan syngur sem óperan klárast.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert