„Loksins, já. Ég hef ekki verið mikið að veiða en hefur alltaf langað að prófa þetta. Ég hef svona rétt svo haft tíma fyrir hestamennskuna en þarna gafst tækifæri og ég fór með flottum konum á öllum aldri í Laxá í Aðaldal,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í samtali við Sporðaköst í morgun, aðspurð hvort maríulaxinn væri kominn í hús.
Með Áslaugu var traustur leiðsögumaður, Eiður Pétursson og sviðsmyndin fyrir maríulaxinn gerist ekki flottari en fyrir neðan Æðarfossa í Laxá. „Toppmaður. Bæði góður leiðbeinandi í ánni og þolinmóður að kenna nýliða.“
Það var orðið ofurlítið stress bæði hjá Áslaugu Örnu og leiðsögumanninum að ná maríulaxinum. „Þetta var þriðji laxinn sem ég setti í. Ég hafði misst tvo í röð og var ekki mjög vongóð um að þetta myndi takast. En svo setti ég í þann þriðja og við náðum honum. Ég var mjög ákveðin að ég myndi ná þessum og það hafðist,“ sagði kát Áslaug Arna.
Var Eiður líka orðinn stressaður?
„Eiður fann fyrir ákveðinni pressu. Það voru innan við tveir tímar eftir af síðustu vaktinni og ég treysti mér ekki til að giska á hvort okkar var stressaðra," sagði hún hlæjandi.
Laxinum var sleppt en engu að síður gekk hún í gegnum ritúalið að sporðrenna ugga á bakkanum til fullkomna athöfnina. „Já. Ég þurfti að klára þann sið.“
Ætlarðu nú að hætta í hestamennsku og snúa þér alfarið að laxveiði?
„Nei. Það þarf meira til svo að ég hætti í hestamennskunni en ég mun hiklaust fara í fleiri veiðiferðir og langar að veiða fleiri. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Ég hef gaman af útivist og fallegri náttúru og ekki skemmir fyrir að hafa einhverja aksjón. Að því leiti er þetta kannski sambærilegt við hestamennskuna,“ sagði Áslaug Arna að lokum.
Sporðaköst óska ráðherranum til hamingju með áfangann. Eftir því sem næst verður komist er líka allt gott að frétta af leiðsögumanninum eftir að stressið var að baki.
Maríulaxinn hennar Áslaugar Örnu mældist 63 sentímetrar og veiddist í Kistuhyl. Hann tók fluguna Valbein.
Af veiði í Laxá í Aðaldal er það að frétta að 229 laxar hafa veiðst í sumar og er það umtalsvert betri veiði en í fyrra. Á sama tíma síðasta sumar voru komnir á land 192 laxar. Vonandi að Laxá sé að ná vopnum sínum á nýjan leik.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |