Starir ehf, sem leigja stærstan hluta Sogsins og Landvernd sem er eigandi að hluta Sogsins hafa gert með sér samkomulag um fleiri skref til uppbyggingar laxastofnsins í ánni. Tekur samkomulagið til svæðisins sem kennt hefur verið við Alviðru og er eins og fyrr segir í eigu Landverndar.
Í sumar verður veiðitíminn í Alviðru styttur og mun veiðitímabilinu ljúka 1. september en ekki standa fram til 20. eins og reglan hefur verið. Er markmiðið með þessari breytingu að gefa laxinum frið þegar nær líður hrygningu og stuðla þannig að uppbyggingu stofnsins. Sá hluti Sognstofnsins sem „átt hefur heima“ í Alviðru hefur verið í lægð síðustu árinu. „Við erum að stíga mörg skref þessi misserin til að tryggja endurreisn laxastofnsins í Soginu.NASF hefur stýrt árangursríku verkefni um uppkaup laxaneta á Ölfusár- og Hvítársvæðinu í samvinnu við leigutaka og landeigendur á svæðinu. Við sjáum það vera byrjað að skila árangri víða á þessu stóra og mikla vatnasvæði sem geymir margar laxveiðiár. Alviðra í Soginu er hins vegar í viðkvæmri stöðu og það var samdóma álit okkar og Landverndar að nauðsynlegt væri að fara í frekari aðgerðir á því svæði. Þetta eykur líkurnar á því að hrygning takist vel og það skili sér á næstu árum í sterkari stofni,“ upplýsti Ingólfur Ásgeirsson hjá Störum í samtali við Sporðaköst.
Veiði í Soginu hefur verið betri í sumar en í fyrra. Bæði Bíldsfell og Ásgarður hafa verið að gefa ágæta veiði á köflum og er Bíldsfellið þegar búið að skila fleiri löxum en allt veiðitímabilið í fyrra. Sömu sögu er að segja um Alviðru en þar ætla menn að horfa til lengri tíma.
Ingólfur Ásgeirsson hefur mikinn metnað fyrir endurreisn laxins í Soginu og það er hans mat að hlutirnir séu að þróast í rétta átt. „Ég hef sjálfur veitt þarna nokkra daga í sumar og líka verið í leiðsögn. Ég sé mjög jákvæða hluti vera að gerast og laxagengd á þessum efstu svæðum hefur verið að aukast. Það er mikið ánægjuefni fyrir mig persónulega því ég hef mjög sterkar taugar til Sogsins og veiddi mikið í ánni þegar ég var að byrja minn veiðiskap. Vonandi sjáum við þessa hluti þróast áfram til betri vegar og þá geta verið góðir tímar framundan í Soginu,“ sagði Ingólfur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |