Við höfum fylgst með nokkrum ungum veiðimönnum á Akureyri sem vöktu athygli sumarið 2019 fyrir flotta bleikjuveiði í Eyjafjarðará. Þetta voru ungir drengir með veiðidellu á lokastigi. Bræðurnir, Ívar ellefu ára og Eyþór þrettán ára ásamt félaga sínum Benjamín Þorra sem líka var þrettán ára á þeim tíma. Þeir voru allir að landa bleikjum yfir sextíu sentímetra þetta ár.
Árin á eftir birtum við af og til frásagnir af drengjunum sem vildu helst búa við Eyjafjarðarána og veiða öll svæði. Foreldrar og ættingjar og vinir skutluðu þeim þegar færi gafst. Nú eru tveir þeirra komnir með bílpróf sem er væntanlega ákveðinn léttir fyrir stórfjölskyldurnar og piltana.
Eftir því sem árunum fjölgaði og drengirnir stækkuðu hafa bleikjurnar líka stækkað. Ívar Rúnarsson nú fimmtán ára fékk sína stærstu bleikju til þessa í Eyjafjarðará síðastliðinn mánudag. Hún tók Squirmy Wormy í Bakkahyl og mældist hvorki meira né minna en 72 sentímetrar. Til samanburðar er algeng stærð á smálaxi í kringum 63 sentímetrar. Eyþór Rúnarsson gerði sér lítið fyrir og braut líka sjötíu sentímetra múrinn í fyrradag. Hann setti í eina af þessum kusum, eins og stórbleikjan er gjarnan kölluð í Eyjafjarðará, í Halldórsstaðaflúðum á Moppuna. Bleikjan hans Eyþórs mældist 71 sentímetri.
Öllum fiski er sleppt í Eyjafjarðará og er öflugt endurreisnar átak í gangi að efla og auka bleikjustofn árinnar sem átt hefur undir högg að sækja.
Þriðji veiðifélaginn í þessum hópi, Benjamín Þorri Bergsson hefur einnig oft ratað í umfjöllun Sporðakasta fyrir stóra fiska í margnefndri Eyjafjarðará. Hann hefur landað fjórum bleikjum sem eru yfir sjötíu sentímetrar. Með þessu áframhaldi er ekki ólíklegt að þeir bræður og Benjamín landi áttatíu sentímetra bleikjum fyrir tvítugsaldurinn. Það er jú alþekkt að veiða og sleppa skilar stærri silungum. Besta dæmið um það eru sjóbirtingsárnar á Suðurlandi og raunar víðar.
Það verður áhugavert að fylgjast með drengjunum áfram og sjá hvenær þeir rjúfa áttatíu sentímetra múrinn. Til viðmiðunar er tveggja ára lax úr sjó, eða svokallaður stórlax oft í kringum áttatíu sentímetrana, þó hann geti orðið mun stærri.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |