„Afmælisgjöfin“ sem ekki náðist að landa

Kristrún Ólöf og Aðalsteinn, nýbökuð afmælisbörn með Vilborgu Sól á …
Kristrún Ólöf og Aðalsteinn, nýbökuð afmælisbörn með Vilborgu Sól á bökkum Laxár. Stóra afmælisgjöfin slapp í þetta skipti en bæði eru þau hjón alvön stórlaxaveiðum og eiga marga slíka. Ljósmynd/Aðalsteinn Jóhannsson
Laxá í Aðaldal hefur í gegnum tíðina verið vettvangur margra ævintýra veiðimanna sem sækja heim þetta stórfiskafljót. Eitt slíkt ævintýri átti sér í vikunni. Hjónin og afmælisbörnin Aðalsteinn Jóhannsson og kona hans Kristrún Ólöf Sigurðardóttir héldu upp á afmælisdaginn sinn við veiðar í Laxá. Aðalsteinn fékk afmælispakka sem var af sverari gerðinni. 
Árni Pétur Hilmarsson, leigutaki og Laxárforingi setti saman skemmtilega frásögn af mögnuðum afmælismorgni hjá Alla, eins og hann er kallaður. Gefum Árna Pétri orðið.
Frá vettvangi. Aðalsteinn í pattstöðu. Stórlaxinn er lagstur í gjánna …
Frá vettvangi. Aðalsteinn í pattstöðu. Stórlaxinn er lagstur í gjánna og línan utan í grjóti. Ljósmynd/Laxá í Aðaldal
„Oft leggja menn mikið á sig til þess að ná þeim stóra, sumir nánast hvað sem er.
Það er þekkt í Laxá í Aðaldal þar sem botn árinnar rennur á beittum klöppum að oft þarf mikla útsjónarsemi til þess að landa þeim stóra.
Það er ekki nóg bara að setja í þá.
Seint í Júlí var Aðalsteinn Jóhannsson við veiðar í Laxá nánar tiltekið á Mjósundi, snemma að morgni. Kvöldinu áður hafði Kristrún kona hans verið að veiða ásamt leiðsögumanni sínum og sáu þau tvo stórlaxa stökkva neðst á Mjósundi.
Ætluðu þau að minni fiskurinn væri í kringum 20p en sá stærri um 30p.
Glampi kom í augu þeirra beggja enda hjónin bæði þekktir stórlaxahrellar.
Aðalsteinn tekur daginn alltaf snemma við veiðar og er oftar en ekki einn, enda búinn að koma í Laxá í yfir 20 ár og þekkir sig því vel um. Þessi dagur var ekkert öðruvísi hvað það varðar nema að bæði Kristrún og Aðalsteinn áttu afmæli þennan dag, en þau hjónin deila afmælisdegi sem og svo mörgu öðru í lífinu.
Björgunaraðgerðir komnar á fullt. Vaðið út með bátinn til að …
Björgunaraðgerðir komnar á fullt. Vaðið út með bátinn til að freista þess að losa línuna. Ljósmynd/Laxá í Aðaldal
Inn á guidaspjallið um kl 8 um morguninn berast einföld skilaboð: Stórlax, hjálp!
Aðalsteinn byrjaði á að setja undir Black Brahan no 8 enda gömul trú kominn frá Völundi Hermóðssyni að þegar vatn hefur olíulitað yfirbragð reynist hún vel. Þegar neðst var komið í hylinn er vatnshraðinn slíkur að flugan byrjaði að skauta og tók sá stóri með látum.
Eftir nokkra baráttu við fiskinn missir Aðalsteinn hann niður flúðina en í flúðinni er djúp gjá sem fiskurinn sökkti sér niður í, hengdi þar línuna á stein og allt sat fast. Lax er talsvert snjall fiskur, sérstaklega þessir stóru enda reikna ég með að það þurfi aðeins vit til að lifa við allar þær hættur sem að honum stafa og ná þessari stærð.
Þetta er nokkuð þekkt í Laxá að stórlaxar hengi sig á steina og oft tekst að landa þeim ef línan hefur ekki særst um of og ef tekst að ná línunni af steininum. Það var ljóst að það þyrfti að fara í aðgerðir til þess að reyna að bjarga fisknum. Vandinn er á þessum stað í ánni er stór hætta, en Æðarfossarnir falla fram skammt fyrir neðan Mjósund og því stór varasamt að falla í ánna á þessum stað. Haldinn var örfundur með veiðimanninum þar sem hann stóð með stöngina í keng og sagðist finna fyrir fisknum á hinum endanum.
Ákveðið var að sækja bát og freista þess að fleyta bátnum út á flúðina með veiðimanninum innanborðs til þess að reyna að leysa þá snurðu sem kominn var á þráðinn. Skeytt var saman löngum spotta með tveimur ankerum og tveir fullsterkir settir á endann. En það voru ekki minni menn en Hólmavaðsprinsinn Kristján Benediktsson og HeiðarHeisi Geirmundsson. Báðir svo öflugir að almannavarnir hefðu alltaf gefið grænt ljós á þessar aðgerðir. Tveir menn óðu svo út brotið með bátinn.
Hér fórna menn höndum eftir níutíu mínútna viðureign við einn …
Hér fórna menn höndum eftir níutíu mínútna viðureign við einn af sverustu sonum Aðaldalsins. Þegar beint samband komst aftur á tók laxinn mikla roku og kvaddi afmælisbarnið. Ljósmynd/Laxá í Aðaldal
Áhorfendapallarnir voru orðnir fullir af fólki og það var skrifað í skýin að þessum yrði landað á afmælisdaginn. Fiskurinn var vissulega enn á línunni en um leið og línan náðist af steininum tók hann sterka roku og kvaddi veiðimanninn og aðstoðar sveina hans sem stóðu eftir með sárt ennið en skemmtilegt ævintýr. Ekki er ljóst hvort þetta var tuttugu pundarinn eða þrjátíu. Þess má þó geta að afmælisbörnin enduðu daginn með 12 laxa á milli sín.“
Fyrir áhugasama er hægt að sjá myndband af þessum atburðum inni á facebooksíðu Laxár í Aðaldal. 
Sporðaköst óska þeim hjónum til hamingju með afmælið.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert