Hávær umræða hefur verið um húkk á laxi í Urriðafossi. Flestir vita hvað húkk er, en það er þegar öngull lendir í fiski og hann er dreginn inn með þeim hætti. Netabændur við Þjórsá hafa frá því að stangveiði hófst kvartað undan að særður fiskur hafi verið að koma í netin. Pálmi Jónsson skrifaði inn á Veiðidellan er frábær, á Facebook að hann hafi fengið lax með öngli í, í net sem hann var að vitja um fyrir neðan Urriðafoss.
Stefán Sigurðsson sem er með Urriðafoss á leigu í gegnum fyrirtæki sitt Iceland Outfitters, kannast við þessa umræðu en segir að húkkveiði sé bönnuð í Urriðafossi og skerpt hafi verið á ýmsum atriðum til að sporna við mögulegu húkki. „Við höfum bannað spúna veiði og minnkað þá króka sem leyfilegt er að nota í fluguveiði í Urriðafossi. Hins vegar er oft ótrúlega mikið af laxi á litlum afmörkuðum stöðum í Urriðafossi að það mun alltaf eitthvað húkkast. En við erum með veiðireglur til að sporna gegn þessu. Við erum líka með öfluga veiðivörslu sem Haraldur Einarsson sér um,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst. Hann viðurkennir að kannast við þessa umræðu og einmitt vegna hennar hafi verið skerpt á öllum veiðireglum.
Ýmsir tjá sig við færsluna frá Pálma, sem nefnd er hér að ofan. Þar skrifar Tómas Skúlason sem rekur Veiðiportið. „Ég er að verða uppseldur í þríkrækjum 4/0 og 5/0. Svo eru menn að banna sökktauma og túpur annarsstaðar. Ég fullyrði af 9 af hverjum 10 löxum eru dregnir inn á lopapeysunni þarna,“ skrifar Tómas.
Lopapeysan sem Tómas vitnar til er yfirfærð merking þegar þríkrókur lendir utan í fiski og hann er dreginn þannig inn.
Áhugavert væri að heyra frá mönnum sem hafa verið í Urriðafossi undanfarið, hvað sé til í þessum orðrómi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |