„Hann liggur í dýpinu í þessu veðri“

Mynd tekin í Kerlingaflúðum. Þessi tók hitchið eftir mikla þolinmæðisvinnu. …
Mynd tekin í Kerlingaflúðum. Þessi tók hitchið eftir mikla þolinmæðisvinnu. Ásgeir Heiðar tók þessa mynd á meðan að þeir toguðust á. Ljósmynd/Ásgeir Heiðar

Fáir þekkja Elliðaárnar betur en Ásgeir Heiðar, þegar kemur að laxveiði. Honum áskotnaðist hálfur dagur í vikunni, sem hann keypti á netinu. Sporðaköstum lék forvitni á að vita hvernig honum fannst staðan vera, sérstaklega í ljósi frétta af stórfelldum laxagöngum í Elliðaárnar.

„Mér fannst staðan bara fín. Vatnið er reyndar mjög heitt og var hærra en lofthiti og maður gat stungið hendinni ofan í og hlýjað sér aðeins. Það er náttúrulega aldrei góðs viti,“ upplýsti Ásgeir Heiðar.

Nokkuð er síðan að hann fór í Elliðaárnar í sumar eða seint í júní. „Ef að teljarinn er ekki að ljúga að okkur eiga að vera þarna yfir tvö þúsund fiskar. Skiptingarnar eru mjög hraðar og maður getur svo lítið gefið sér tíma til að skoða. En ég dró þann happadrátt að fara niður á svæði eitt í ágúst – sem er ekki alveg það sem þú vilt,“ hlær Ásgeir Heiðar.

Fáir þekkja Elliðaárnar betur en Ásgeir Heiðar. Hér er hann …
Fáir þekkja Elliðaárnar betur en Ásgeir Heiðar. Hér er hann að aðstoða Dag B. Eggertsson borgarstjóra sumarið 2020. Áhugasamir fylgjast með. mbl.is/Einar Falur


Hann þess í stað dreif sig upp í Höfuðhyl sem er efsti veiðistaðurinn í Elliðaánum og hluti af frjálsa svæðinu. „Ég náði einum þar og skellti mér svo á mitt svæði til að prufa það. Það er birtingur á Breiðunni en ekki mjög stór. En þar gat maður aðeins dundað. Ég fór svo í Teljarastreng og þar kom einn silfraður og skellti sér á hitchið með látum en náði því ekki. Þetta var silfraður fiskur og gæti alveg hafa verið sjóbirtingur. Ég sá það ekki nógu vel. Þetta var svo gaman og ég hugsaði með mér að deginum væri reddað.“

Næsti viðkomustaður hjá Ásgeiri voru Kerlingaflúðir. Áfram var hitchið undir. „Þar sá ég einn fisk fyrir framan stein. Ég er svo þrjóskur að ég eyddi þessum klukkutíma sem ég átti eftir á svæðinu þar. Hann kom tvisvar en ekki af neinni alvöru. Það var komin á hann svona gul slikja Hann endaði með því að hreinsa sig upp úr og taka. Þetta er bara ein flottasta taka sem ég hef fengið um dagana. Hann stökk upp með hitchið í kjaftinum.“

Þú hefur sagt að flugan, það er litir skipti ekki máli. Varstu alltaf með sömu fluguna?

„Já. Ég var bara með hitch. Allan tímann. Hann var búinn að skoða þetta tvisvar og endaði með að bilast. Ég var búinn að reyna annars staðar flugur eins og Night Hawk númer sextán. Það eina sem hreyfði við fiski hjá mér var hitchið, svo ég notaði það og pældi ekki í öðru.“

En miðað við það sem þú sást í ánni þá eru þessir tvö þúsund laxar á öðrum stöðum en þú heimsóttir, eða hvað?

„Þessir fiskar geta legið í Fljótinu og Heyvaðinu eða Kistunum. Veðrið er þannig að hann liggur bara á dýpi. Ég hef séð í Efri–Kistu stóran svartan fláka sem leystist svo upp. Það geta legið hundrað fiskar á smá bletti á þessum stöðum. En eini fiskurinn sem er að taka við þessar aðstæður er sá sem liggur ofarlega í straumi. Það er fiskur sem er í súrefni.“

En Ásgeir Heiðar sá nokkra stóra fiska sem vöktu athygli hans. „Ég fór í pyttinn fyrir ofan Hraunið. Held að það heiti Hraunsnef en ég kalla það Litla–Hraun. Ég sá þar fisk stökkva alveg upp úr. Kæmi mér ekki á óvart að það væri 99 kallinn sem gekk í árnar 24. júní. Hann kom einu sinni í hitchið og ekki söguna meir. En ég sá hann vel þegar hann stökk og þetta er svakalega þykkt kvikindi. Aðeins orðinn rauðleitur á belginn.

Golli ljósmyndari var á sama stað viku fyrr og kastaði Sunray í lokin yfir pyttinn, bara af klettunum og hann elti alveg að landi. Golli missti alveg úr eitt slag við þá upplifun.“

Þessu til viðbótar nefndi hann að þrír mjög stórir laxar væru efst í Hundasteinunum, nánast undir brúnni. „Það er mjög erfitt að sjá þá en þeir voru allir yfir áttatíu sentímetra.“

Ásgeir Heiðar var mjög sáttur með morguninn. Landaði þremur og fékk víða athygli frá laxi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hann náði einum mjög ofarlega í Símastreng, Höfuðhyl og eins og fyrr segir í Kerlingaflúðum.

Hann hefði svo gjarnan viljað fara á fleiri staði en skiptingar í Elliðaánum eru mjög hraðar og jafnvel svo að menn sprengjast á milli staða í stressi. En Ásgeir Heiðar hafði ákveðið að láta það ekki á sig fá og valdi sér einfaldlega staði til að dunda á, eins og hann orðar það.

Reynslan hafi kennt honum að ef maður er í stressi að ná öllum stöðum, skerðist einbeitni og árangur verður minni en ella.

Veiðitölurnar eru ekki upp á marga fiska í Elliðaánum. Hvað finnst þér um það?

„Það eru fyrst og fremst aðstæður sem valda því. Hvert framhaldið verður fer eftir veðrabreytingum. Á meðan að vatnið er svona heitt er þetta ekki að fara að breytast mikið.

Ásgeir Heiðar hafði bara séð ljósmynd af þessum 99 sentímetra …
Ásgeir Heiðar hafði bara séð ljósmynd af þessum 99 sentímetra fiski þar til hann stökk fyrir hann á Litla-Hrauni eða Hraunsnefi. Hann leit einu sinni við hitchinu en tók ekki. Ljósmynd/RWD
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert