Laxveiðisumarið byrjaði vel og voru margar veiðiár yfir veiðitölum frá því í fyrra. Þetta gaf mönnum ágætisvon um þokkalegt sumar. En það fjaraði undan þessu upp úr miðjum júlí, á vel flestum stöðum. Helst er það NA–hornið sem sker sig úr með góða veiði.
Sporðaköst birtu fyrirsagnir á borð við „Bylgja bjartsýni fer um um veiðiheiminn“ og „Afar jákvæðar fréttir úr opnun Norðurár.“ Þessar fréttir áttu innistæðu á þeim tíma en svo dró úr þessu.
Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur sem beint hefur sjónum að Borgarfirði í áratugi var ekki bjartsýnn fyrir sumarið. Eins og fiskifræðinga er háttur talaði hann varlega. Hins vegar ef við rifjum upp hvað hann sagði í viðtali hér á Sporðaköstum um miðjan apríl ætti staðan ekki að koma neinum á óvart. Þá sagði Sigurður Már;
„Við vitum nokkurn veginn hvert laxinn okkar er að fara og höfum við Jóhannes Guðbrandsson kollegi minn á starfstöð Hafrannsóknastofnunar á Hvanneyri náð í gögn um sjávarhita á þessum beitarsvæðum í júlí og keyrt þau gögn á móti því hvað kemur af smálaxi ári síðar. Þetta eru þær aðstæður sem mæta gönguseiðunum þegar þau koma á uppeldissvæðið. Einföld tölfræði í þessu skýrir mjög mikið. Þessi sjávarhiti í júlí skýrir um 50% af breytingum í smálaxaveiðinni. Bara þessi einfalda mæling segir okkur mjög mikið. Við tökum þessar yfirborðsmælingar sjávar frá NOAA Bandarísku veðurfræðistofnuninni.“
Og áfram vitnum við í þessa frétt frá 16. apríl í vor.
„Ég hef tekið hreistursýni af löxum í Norðurá í sumar og þar sést að það er slakur vöxtur í þessum árgangi. Mér finnst þetta einna helst minna á árin 2012 og 2014, sem margir muna sem afar slök ár.
Sigurður Már segir að líklegt sé að fiskurinn á Borgarfjarðarsvæðinu sé kominn og að ekki sé von á frekari göngum á því svæði. Öðru mál gegni um Vestanvert landið og nefnir hann sérstaklega Laxá í Dölum og aðrar ár þar sem fiskur geti hinkrað með göngu vegna vatnsleysis sem hrjáir margar ár á landinu þessa dagana.
Hann segir að búast megi aukinni veiði ef veðrabreytingar verða en ljóst sé orðið að þetta sumar verði vel undir meðallagi úr því sem komið er.
Þar sem veiðin í Borgarfirði er afar stór hundraðshluti heildarveiði á landinu er ljóst að sumarið í sumar verður töluvert undir meðallagi, eins og Sporðaköst hafa reyndar þegar bent á.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |