Fádæma þurrkar víða um land í sumar

Erlendur veiðimaður með lax á í Víðidalsá, fyrr í sumar. …
Erlendur veiðimaður með lax á í Víðidalsá, fyrr í sumar. Þeir eru orðnir dýrmætir laxarnir sem sett er í þessa dagana. Vatnsleysi er orðið viðvarandi vandamál. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Einhverjir  mestu þurrkar sem hafa orðið á sumarmánuðum á Íslandi eru að setja verulegt strik í laxveiðina. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að úrkoma í Stykkishólmi hafi mælst sú næst minnsta frá því að mælingar hófust, eða árið 1857. Heildar úrkoma í Hólminum í júlí var aðeins 4,7 millimetrar.

Þessir miklu og nánast fordæmalausu þurrkar eru nánast um allt land en þó eru svæði á landinu sem liðið hafa meir fyrir þetta en önnur. Þannig nefnir Einar sérstaklega tvö svæði þar sem úrkoma í júlí er innan við tíu prósent af meðallagi. Hann skrifar á Facebooksíðu sína: „Annað er innanverður Breiðafjörður að meðtöldum Stykkishólmi yfir í Dali, Hrútafjörð og V-Hún. Hitt er SA–lands, frá Fljótshverfi og austur í Berufjörð að meðtöldum Hornafirði.“

Síðar segir Einar svo: „Sér svo sem ekki mikið á gróðri, en margar ár t.d. á Skógarströnd og í Dölum eru að verða nánast vatnslausar. Norðurá við Stekk mælist með 1% meðalrennslis árstímans. Það gerir Fossá í Berufirði einnig. Og þrátt fyrir sólbráð á jöklum í þessari tíð er rennsli jökulánna fremur lítið.“

Mesta norðanátt í hundrað ár

Einar vitnar í Trausta Jónsson veðurfræðing sem hann segir halda því fram að nýliðinn júlí mánuður hafi verið einhver þrálátasti norðanátta júlí, síðustu hundrað ár.

Einar Sveinbjörnsson furðar sig á því hversu litla umfjöllun staðbundnir þurrkar í sumar hafa fengið í fjölmiðlum.

Ein birtingarmynd þessara miklu þurrka eru veiðitölur í laxveiðiám. Víða er veiði orðin afskaplega léleg og nánast viðburður ef fiskur veiðist. Hér er verið að tala um margar af þekktustu laxveiðiám landsins. Vissulega er ágúst oft erfiður veiðitími, þegar göngum er að mestu lokið í árnar og fiskurinn er ekki enn farinn að undirbúa hrygningu. Það breytist með haustinu sem er handan við hornið. Þá kemur meiri árásargirni í fisk og veiðimenn njóta góðs af því.

En sú staða sem verið hefur uppi síðustu daga í mörgum laxveiðiám er afar erfið. Í fyrsta lagi er vatnsleysi víða og súrefnismettun minnkar. Árnar slýast upp og fiskur hreinlega tekur ekki við þessar aðstæður. 

Rigningin enn að gufa upp?

Veðurspár gerðu ráð fyrir hraustlegri rigningu um nánast allt land síðari hluta vikunnar. En eins og svo oft áður í sumar gufar þessi rigning upp í kortunum þegar nær líður rauntíma. Svo virðist einnig vera að gerast núna.

Þegar að loksins koma rigningar mun í kjölfarið verða veiði víða. En þessar rigningar þurfa að koma sem fyrst ef eitthvað á að rætast úr veiðilega séð. Hvað sem rigningum mun líða er orðið ljóst að veiðisumarið 2023 mun fara í sögubækurnar sem lélegt sumar. Eftir góða byrjun víða, þornaði þetta upp, í orðsins fyllstu merkingu. Þá eru göngur á smálaxi víða vonbrigði.

Veiðin í gær ekki upp á marga fiska

Ef við skoðum hvað nokkrar lykilár gáfu í gær eru það ekki burðugar tölur. Þessar upplýsingar eru fengnar af appinu Angling iQ. Norðurá var með fimm laxa. Langá sex, Þverá tvo, Hrútafjarðará tvo, Víðidalsá einn, Blanda ekki bókað fisk frá 12. ágúst. Ekki sjást tölur yfir dagsveiði í Laxá í Dölum, Grímsá, Vatnsdalsá eða Laxá á Ásum. Veiðin í þeim ám var ekki betri en í þeim sem nefndar eru hér að ofan. Miðfjarðará átti hins vegar ágætan dag í gær og þar komu á land sautján laxar.

Aðeins hefur verið að bera á smálöxum í minni kantinum nú þegar liðið hefur á sumar. Fiskar sem ná ekki sextíu sentímetrum. Þannig veiddust tveir í Miðfjarðará í gær sem mældust 52 og 55 sentímetrar. Svona örlaxar hafa frekar þekkst í Vopnafjarðaránum en benda til þess að vistin á fæðuslóð í sjónum hafi verið erfið.

Forvitnilegt verður að sjá vikutölur frá Landssambandi veiðifélaga á morgun en ef að líkum lætur er víða um sögulega lélega viku að ræða. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert