Fjölmennasta kvennaholl sem Sporðaköst hafa vitneskju um er nú að veiða í Ytri–Rangá. Samtals eru 37 konur við veiðar og hefur verið mikið fjör og meiri veiði.
Harpa Hlín Þórðardóttir hjáIcelandOutfitters sem annast sölu og rekstur á Ytri–Rangá segir þetta hafa verið dásamlega daga. En það var einmitt Harpa sem hafði veg og vanda að skipulagningu á hollinu. „Veiðikonur eru svo skemmtilegar og mig langaði að kynnast fleiri veiðikonum meðal annars til að eignast fleiri veiðifélaga til framtíðar. Þetta eru breyttir tímar og fyrir tíu árum hefði ég átt í vandræðum með að finna nokkrar konur til að fara með. Síðustu ár hefur þetta verið að breytast mikið og sérstaklega eftir þetta holl er ég með langan lista yfir skemmtilegar konur sem verður gaman að veiða með í framtíðinni,“ sagði Harpa Hlín í samtali við Sporðaköst.
Áhugi kvenna á stangveiði hefur vaxið hröðum skrefum síðustu ár og eru til fjölmargir veiðiklúbbar kvenna sem margir hverjir eru fjölmennir. Án efa er þó veiðiklúbburinn Árdísir fjölmennastur en sá félagsskapur telur um hundrað konur.
Fyrstu vaktina landaði hollið sautján löxum og missti annað eins. Samsetning á afla var allt frá legnum smálaxi yfir í lúsuga stórlaxa og allt þar á milli.
Það hefur gjarnan loðað við kvennahollin að þar er meiri dagskrá en gerist og gengur. Margfræg eru þemakvöld kvenna í veiðihúsum og ekki vantaði það í þessari ferð. Jólin voru þema síðari kvöldsins og var ekkert til sparað. Gervijólatré var dregið fram og pakkar rötuðu þangað.
Það er búin að vera hörkuveiði á stelpunum og í gærkvöldi var hópurinn búinn að skrá 57 laxa eftir þrjár veiðivaktir. Þær eru nú að klára í morgunsárið og ekki ólíklegt að hópurinn endi með einhverja sjötíu plús laxa.
Ytri–Rangá hefur skilað mestri veiði allra laxveiðiáa í sumar og var síðast þegar Landssamband veiðifélaga birti vikutölur komin með rúmlega 1.400 laxa á land.
Samtals endaði hollið með 77 laxa sem verður að teljast fínasta veiði á tveimur dögum. Þá er magnað að segja frá því að allar 37 konurnar lönduðu laxi og samtals voru tveir maríulaxar í hollinu. Þar af kom annar þeirra á síðustu mínútu veiðitímans. Verður ekki annað sagt en Harpa og IO hafi staðið einkar vel að þessari skipulagninu og það er frábært að allar fengu lax.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |