„Það er bullandi fiskur í henni“

Helgi Helgason náði þessum á Hólmavaðsstíflu á þýska Snældu og …
Helgi Helgason náði þessum á Hólmavaðsstíflu á þýska Snældu og var sáttur enda kominn alla leið frá Cuxhaven í Þýskalandi til að veiða í Laxá. 80 sentímetra hængur. Ljósmynd/Eiður Pétursson

Á vikunnar er án efa Laxá í Aðaldal. Drottningin sem var svo gott sem búin að missa kórónuna er að rétta úr sér. Eiður Pétursson, leiðsögumaður og af þeim kynstofni sem hefur stundað Laxá áratugum saman ef ekki lengur, segir einfaldlega: „Það er bullandi fiskur í henni. Meðallengd laxa er vissulega ekki há en það er einmitt einkenni á stofni í bata að mikið er af ungviði. Fyrir norðan eru menn bjartsýnir,“ upplýsti Eiður Pétursson í samtali við Sporðaköst.

Árni Pétur Hilmarsson, sem annast sölu og rekstur Laxár, var kampakátur þegar Sporðaköst heyrðu hljóðið í honum. „Það hefur ekki verið meira af fiski í henni frá árinu 2016.“ 

En hvað segja tölurnar? Laxveiði er svolítið eins og fótbolti. Dauðafæri og dugnaður telja bara ef mörk eru skoruð. Það er alveg sama hvernig veðrið er eða hversu óvanir veiðimennirnir eru. Aflatölur eru það eina sem hægt er að bera saman milli ára.

Eiður Pétursson með fallegan lax úr Þvottastreng. Þeir frændur lönduðu …
Eiður Pétursson með fallegan lax úr Þvottastreng. Þeir frændur lönduðu 39 löxum úr Laxá á sex stangir. Eiður kann best við sig vaðandi eins og vöðlur leyfa í Laxá. Hann segist andsetinn af Drottningunni. Ljósmynd/Guðmundur Ingi

Laxá er komin í ellefta sæti yfir aflahæstu árnar á landinu. Hún er með 450 laxa skráða miðað við miðvikudagskvöld. Í fyrra var heildarveiði í henni 402 laxar sem er eitt lélegasta sumar sem Laxá hefur boðið upp á. Árin á undan voru einnig mjög léleg. 2021 voru skráðir 401 lax í henni og 2020 einungis 388. Þurrkaárið mikla, 2019, gaf hún 501 lax. Það er ljóst að Laxá er að skila sínu besta ári í að minnsta kosti fjögur ár og jafnvel lengur ef vel gengur síðustu vikurnar.

Sumarið 2016 skilaði Laxá góðri veiði eða rúmlega 1.200 löxum eins og sumarið 2015. Það er bjartsýni að halda að hún fari í þá tölu en margir vona að þetta sumar sé ávísun á að botninum hafi verið náð síðustu sumur og nú kunni leiðin að liggja upp á við.

Guðmundur Ingi, sonur Eiðs, fékk stærsta laxinn í ferðinni. 90 …
Guðmundur Ingi, sonur Eiðs, fékk stærsta laxinn í ferðinni. 90 sentímetra hrygna sem hann fékk á Lönguflúð. Pabbi hans segir hann hafa sýkst af veiðidellu fimm ára og ekki náð sér síðan. Ljósmynd/Eiður Pétursson

Eiður Pétursson var við veiðar í Laxá í byrjun mánaðarins ásamt Grafarbakkafrændum sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Húsvíkingnum Helga Bjarnasyni, sem var á meðan hann lifði mikilvirkur í öllu starfi í kringum Laxá. Helgi, eða Grani eins og hann var kallaður, átti stórleik í Sporðakastaþætti á síðustu öld þegar hann og Helgi sonur hans töpuðu baráttu við stórlax sem hófst í Háfholu í Kistukvísl. Muna margir þann þátt enn og sennilega enginn betur en Helgi Helgason, sonur Grana, sem fékk það hlutverk að hlaupa á eftir laxinum og missa hann.

En þeir Grafarbakkafrændur voru í bullandi lífi í veiðitúrnum í Drottninguna og lönduðu samtals 39 löxum á sex stangir. Eiður og sonur hans fengu fimmtán og misstu annað eins.

Eiður segist andsetinn af Laxá í Aðaldal. „Fyrir okkur sem erum andsetnir af Laxá þá eru þetta mjög góð tíðindi eftir mörg mögur ár,“ skrifaði Eiður á Facebook-síðu sína eftir veiðitúrinn.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert