Gæsaveiðin hefst - tímabundið sölubann

Gæsaveiðin hefst á morgun. Nú er sölubann á grágæs og …
Gæsaveiðin hefst á morgun. Nú er sölubann á grágæs og afurðum úr henni. Sölubannið er tímabundið og verður endurskoðað að ári. Ljósmynd/Ingólfur Guðmundsson

Gæsaveiðitímabilið hefst á morgun og að þessu sinni undir örlítið breyttum formerkjum. Söluveiðibann hefur verið sett á grágæs og grágæsaafurðir. Flesta veiðimenn skiptir þetta litlu máli en þeir sem gert hafa út á magnveiði og sölu missa spón úr aski sínum.

Grágæsastofninum hefur fækkað undanfarin ár og er svo komið að rétt þykir að grípa inn í. Fordæmi er fyrir sölubanni á villtum fuglum og er rjúpan gott dæmi um að slíkt bann getur virkað vel.

Nú mega veiðimenn sem hafa gilt veiðikort og skotvopnaleyfi halda til fjalla og flestir er að huga að heiðagæs á þessum tíma árs en þegar fram líður haustið og fer að kólna fer grágæsin að leita í ræktarlönd og þá huga margir að því að ná sér í góðan mat sem grágæsin svo sannarlega er.

Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn …
Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn til lendingar. Í byrjun veiðitíma huga flestir að heiðagæs. Grágæsin er meira veidd þegar líður á haustið. Morgunblaðið/Ingó

SKOTVÍS fjallar um sölubannið á Facebooksíðu sinni og segir þar: 

„Á undanförnum árum hefur grágæsarstofninum hnignað og er sölubann sett fram til að auka líkurnar á að stofninn nái sér á strik á ný. Lagt verður mat á stöðuna að ári liðnu og verði áframhaldandi hnignun á stofninum á þeim tíma verður lengd veiðitímabils grágæsar tekið til skoðunar. Verði hins vegar fjölgun í stofninum verður metið hvort þörf verði á áframhaldandi sölubanni.
Í ljósi umræðu um hvernig eftirliti verði háttað með sölubanninu og ábendinga um að sölubannið muni hafa þau áhrif að grágæs verði seld sem heiðagæs bendir ráðuneytið á að veiðimaður hefur heimild til að selja villibráð sem hann veiðir sjálfur. Villibráðin þarf hins vegar að vera afhent óunnin í hamnum nema viðkomandi aðili hafi leyfi Matvælastofnunar til að verka hana og selja beint til neytenda. Ráðuneytið hvetur þá sem kaupa unna villibráð til að hafa þetta í huga við sín kaup til að tryggja að ekki sé um að ræða vöru unna úr grágæs. Þá er mikilvægt að neytendur séu vel upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa, hvort heldur sem er á veitingastöðum eða í matvöruverslunum.
Unnið er að því að útfæra nánar eftirlit með sölubanninu. Það eftirlit mun meðal annars fela í sér sýnatökur og DNA greiningu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Fækkað hefur í grágæsastofninum á undanförnum árum og við því verður að bregðast. Með sölubanninu nú eru stigin skref til að vernda stofninn, sem vonandi duga til að hann taki við sér á ný og verður staðan metinn á ný að ári liðnu.““
Kíkt úr gæsabyrgi. Hvort er þetta gervigæs eða lifandi fugl?
Kíkt úr gæsabyrgi. Hvort er þetta gervigæs eða lifandi fugl? Ljósmynd/ES
Sölubannið er tímabundið eins og kemur fram í skrifum SKOTVÍS og verður staðan metin að ári. Eins segir í upphafi fréttarinnar eru flestir skotveiðimenn lítið að hugsa um þetta enda kemur þessi breyting illa við fæsta. Áki Ármann Jónsson formaður SKOTVÍS bendir þó á í samtali við Sporðaköst; „Villibráð er náttúrulega bráðholl og með lágt kolefnisfótspor. En það er slæmt að minnka aðgengi almennings að villibráð. Kannanir sýna að neysla á villibráð gerir fólk jákvæðara gagnvart veiðum,“ sagði Áki. Hann telur að almennt hafi skotveiðimenn skilning á því að nú þurfi að staldra við þar sem grágæs hefur fækkað verulega undanfarin ár.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert