Hönnun flugustanga er list og vísindi

Peter Knox er rétt rúmlega þrítugur verkfræðingur og fluguveiðiáhugamaður. Hann …
Peter Knox er rétt rúmlega þrítugur verkfræðingur og fluguveiðiáhugamaður. Hann fékk ungur vinnu hjá Sage verksmiðjunum er nú yfirhönnuður að Sage flugustöngunum. Ljósmynd/PK

Veiðiáhugamaðurinn og verkfræðingurinn Peter Knox sem er 31 árs gamall er yfirhönnuður
Sage þegar kemur að flugustöngum. Síðustu stangirnar sem Sage sendi frá sér eru R8 Core
og R8 Salt. Core stöngin komst fyrst í hendur veiðimanna við upphaf veiðitíma vorið 2022.
Core fjölskyldan bíður allar gerðir og lengdir af einhendum sem hægt er að hugsa sér við
íslenskar aðstæður. Hvort sem við viljum veiða kraftmikla silunga á nettar þurrflugur eða
fara með þungar túpur djúpt að leita að stórlaxi. „Við leitumst við að sameina list og vísindi
þegar kemur að R8 Core stöngunum,“ segir Peter Knox í samtali við Veiði.

Þú ert að tala um að sameina fegurð og gæði þegar þú segir list og vísindi, eða hvað?

„Já klárlega. Vísindin koma þó með meira að borðinu í þessari stöng. Core er hönnuð úr nýrri
samsetningu koltrefja sem eru uppistaðan í hráefninu. Við höfum líka þróað lím- og
plastblönduna sem binst við koltrefj­arnar og gefur okkur sveigjuna og styrkinn. Við erum
svo heppin með staðsetningu á þróunarsetrinu okkar. Við erum í næsta nágrenni við stór
fyrirtæki í flugvéla iðnaðinum. Bæði Boeing og Airbus eru stutt frá okkur og við höfum notið
þess að fylgjast með þróun sem þar hefur átt sér stað í nýjum efnum með sveigjanleika og
styrk að markmiði.“

Í vinnu sinni ferðast Peter um allan heim til að …
Í vinnu sinni ferðast Peter um allan heim til að kynnast aðstæðum og upplifun veiðimanna. Hann segir að mælitækin séu mjög góð en taki þó aldrei fram reynslunni og raunveruleikanum. Ljósmynd/PK

Peter segir að tengsl við flugvélaframleiðendur hafi reynst Sage vel. Þeir fái að fylgjast með
þeirri framvindu sem er þar í gangi og tilraunir með nýtt hráefni á vegum þessara
stórfyrirtækja veiti þeim aðgang að áhugaverðum niðurstöðum til að vinna með löngu áður
en tæknin sjálf er komin á almennan markað. „Kröfurnar eru afar stífar þegar kemur að
flugvélasmíð eins og flestir vita. Bæði hvað varðar öryggi og styrk. Við höfum virkilega notið
góðs af því að vera í þessum suðupotti þróunar og tilrauna þessara tæknifyrirtækja. Fyrir
hönnuð er mjög spennandi að komast yfir þessi nýju efni snemma á þróunarferlinum og
skiptast á niðurstöðum úr prófunum. Þetta gefur okkur dýrmætt forskot. Þegar við tölum
um að listir og vísindi mætist í stöngunum okkar þá er rétt að nefna það að vísindahlutinn
tekur mun lengri tíma og við erum gjarnan að vinna þrjú ár fram í tímann þegar hönnun á
nýjum stöngum er annars vegar. Hin hliðin á þessu tilraunastarfi er að það koma líka
neikvæðar niðurstöður og eins og með R8 Core stöngina þá vorum við að vinna með þrjár
mögulegar tækninýjunar. Ein þeirra náði ekki á endastöð en tvær nýtast okkur mjög vel og
eru hluti af því hversu sáttir við erum við Core R8.“

Peter segir að þó svo að þeir fái í hendurnar nýtt efni þá taki þeir ekki bara þær niðurstöður
og fari að framleiða nýja stöng. „Okkar markmið er alltaf að bæta frammistöðu stangarinnar
hvað varðar þá eiginleika sem við erum að leita að hverju sinni. Við miðum við tíu prósent
aukna getu bæði í styrkleika og þeim eiginleikum sem við viljum að stöngin færi
veiðimanninum. Við fáum kannski í hendurnar nýtt efni eða nýja samsetningu þar sem fylgja
með niðurstöður úr ótal tilraunum. Við horfum að sjálfsögðu á þær upplýsingar en treystum
því ekki að þær virki sjálfkrafa fyrir okkar framleiðslu. Við framkvæmum því allar þessar
prófanir upp á nýtt miðað við hvernig við munum nýta efnið. Það er eitt að fá flatt efni sem
búið er að teygja og toga og stenst svo og svo mikið tog eða sveigju. Við rúllum þessu upp í
stangarform og gerum okkar tilraunir með efnið í því formi og það þarf að standast þær
kröfur sem við erum að leita að. Ef það er niðurstaðan þá getum við kallað til listagyðjuna og
farið að huga þörfum veiðimannsins og hvernig þær þarfir hafa verið að breytast og eftir
hverju menn eru að leita. Þá þurfum við að spyrja okkur margra spurninga. Hvaða línur eru
veiðimenn að nota. Eru flugur að stækka eða minnka? Vilja veiðimenn kasta lengra eða vera
sneggri. Þetta eru allt atriði sem raðast upp og við höfum í huga þegar hönnunarferlið er
hafið. Stöngin þarf að skila þeirri vinnu sem ætlast er til en hún þarf líka að fara vel í hendi
og vera góður og fallegur gripur.“

Covid tíminn nýttist Peter og samstarfsmönnum vel. Hann fór með …
Covid tíminn nýttist Peter og samstarfsmönnum vel. Hann fór með prufu eintök og þar sem fáir voru að veiða var hægt að komast að nánast hvar sem var. Ljósmynd/PK

Hlustandi á Peter er ljóst að hann er að tala um börnin sín. Manni verður hugsað til
veiðistanganna sem bíða þolinmóðar inni í skáp og eru tilbúnar fyrir sumarið. Þetta eru ekki
bara veiðistangir í huga Peters. Þær eiga að láta drauma rætast og tryggja að draumfarirnar
verði góðar. Það er gaman að hlusta á hann þegar hann kemur því að prófa framleiðsluna.
Hann segir Sage vera með bestu möguleg mælitæki þegar kemur því að reikna út og mæla
stífleika og hröðun í stöng í heild sinni eða einstökum hlutum hennar. „Mælitækin eru mjög
góð og nákvæm. En þau segja okkur ekki alla söguna. Ég myndi segja að þau gefi okkur
sterka vísbendingu sextíu til sjötíu prósent af raunveruleikanum. Það verða aldrei til
mælitæki sem geta gefið þá svörun sem veiðimenn gefa. Við erum með tjörn í bakgarðinum
hjá okkur og þar prófum við stangirnar og staðfestum mælingar. Það gefur okkur frekari
upplýsingar en við verðum að fara með stöngina í raunverulegt umhverfi. Veiða með henni
og fá sérfróða veiðimenn til að nota hana áður en við getum sagt. Þetta er málið. Þetta er
komið.“

Peter dvelur löngum stundum við tjörnina og kastar. Mis langt, með ólíkum flugum og línum.
Svo er farið á tilraunastofuna og gerðar breytingar á hvernig kol­trefjarnar liggja, jafnvel í
hvaða átt og samsetning límblöndunnar aðeins aðlöguð og svo er kastað aftur og aftur.
Þetta er eins og gefur að skilja tímafrekt ferli. Þrátt fyrir þetta allt er nauðsynlegt að taka
réttu samsetninguna og hönnunina og finna hvernig er veiða með stönginni. Veiðistöng í
hæsta gæðaflokki er í raun mikið tækniundur. Eins og Peter bendir á, að ef stöng er beygð
mikið þá myndast ólíkir kraftar í stönginni. Hluti stangarinnar þrýstist saman, á meðan að það tognar á stönginni á öðrum stöðum í sveigjunni. Koltrefjarnar þurfa því að vera þannig saman settar að þær þoli hvoru tveggja. Lím- og plastblandan þarf svo að binda saman koltrefjarnar þannig að þær þoli þessa ólíku krafta.

Þrátt fyrir að vera ungur að árum á Peter langan feril að baki hjá Sage. „Ég er svo heppinn að ég ólst upp í næsta nágrenni við verksmiðja Sage og byrjaði ungur að hjóla þangað og sækja um vinnu. Í mörg ár var svarið nei. Svo kom að því eitt árið að ég fékk já og byrjaði sem sumarafleysingamaður. Fyrsta verkefnið hjá mér var að rúlla upp efninu sem notað er í veiðistangirnar. Þetta sumar kynntist ég vel þróunar og framleiðsluteyminu. Þeir Steve Greist og Jerry Siem tóku mér mjög vel og eitthvað sáu þeir í mér og ég fékk smá saman meiri vinnu og ég fagnaði hverri klukkustund.

Hann hefur veitt á öllum helstu stöðunum, hvort sem er …
Hann hefur veitt á öllum helstu stöðunum, hvort sem er í fersku eða söltu vatni. Ísland er þó enn eftir og hann vonast til að komast hingað næsta ár. Ljósmynd/PK

Verksmiðjan okkar i Bainbridge er ekki nema íhálftíma ferjusiglingu frá miðborginni í Seattle og þegar ég var í háskólanámi þá gat ég unnið einn dag í viku í verksmiðjunni. Svo vann ég öll sumur og smám saman var ég tekinn inn í þróunartreymið. Þegar ég svo útskrifaðist frá háskólanum í Washington réði ég mig í fullt starf hjá Sage. Ég var svo lánsamur að ná að vinna með Jerry Siem í átta ár, en hann fór á eftirlaun fyrir nokkrum árum. Steve Greist hefur líka verið mikill lærifaðir minn og hann er enn með okkur hjá Sage. Þeir voru svo flott blanda. Steve var vísindamegin og Jerry meira í listinni.“

Peter er meðvitaður um ábyrgðina sem fylgir því að hanna stöng fyrir kröfuharða veiðimenn
undir merkjum eins þekktasta stangaframleiðanda í heiminum. „Á meðan að Jerry var með
okkur þá átti hann síðasta orðið. Þegar hann sagði. Þetta er góð stöng. Þá var hún það og
tilbúin til framleiðslu. Það er aðeins öðruvísi tilfinning þegar ég þarf að segja það.“

Ertu núna að vinna að hönnun á stöng sem við höfum ekki heyrt af ennþá?

Peter fer að hlæja. „Já. Ég er einmitt að rífa hár mitt yfir því hvernig við leysum ákveðin mál
varðandi þá hönnun. Það er komin pressa á mann víða frá í ferlinu þannig að nú eru
spennandi tímar,“ hlær Peter og segist ekki geta tjáð sig meira um þessa nýju hönnun á
þessu stigi. Segir bara að það sé mjög spennandi verkefni.
Hann er með mikla veiðidellu og væntanlega er það eitt af lykilatriðunum á bak við vinnuna
sem hann er að vinna. „Já. Ég veiði eins mikið og ég mögulega get. En samt einhvern veginn
aldrei nóg,“ hlær þessi geðþekki verkfræðingur. Hver kannast ekki við þessi svör?
„Ég á eftir að koma til Íslands að veiða. Það er mjög ofarlega á listanum mínum yfir hluti sem ég verð að gera. Ég er að vonast til að komast næsta sumar og hitta Óla og Maríu og alla í Veiðihorninu og vonandi komast í smá veiði.“

Nú þegar R8 Core er búin að vera á markaðnum í rúmt ár. Hversu sáttur ertu við stöngina?

„Ég er mjög sáttur og líka ánægður og þakklátur fyrir þau viðbrögð sem höfum fengið. Þessi
stöng var lengi í fæðingu og þar spilaði heimsfaraldurinn líka stórt hlutverk. Hönnunarferlið
dróst um ár vegna Covid og alls sem því fylgdi. En þegar upp var staðið var það ágætt. Ég
hafði meiri tíma til að fínpússa þau smáatriði sem ég vildi og í dag er ég mjög ánægður með
að hafa fengið þann tíma. Ég og starfsfélagi minn fórum til Idaho og leigðum okkur hús við
góða silungsveiðiá og tókum frumtýpurnar til kostanna. Við vorum að kasta með níu feta
frumgerð af R8 fyrir línu fimm. Það er sú stöng sem flestir silungsveiðimenn í Bandaríkjunum
velja þegar kemur að lengd og línu. Þessum tíma á árbakkanum í Idaho var vel varið og
skilaði sér í enn betri stöng.“

Peter í sínu náttúrulega umhverfi. Við veiðar en um leið …
Peter í sínu náttúrulega umhverfi. Við veiðar en um leið að prófa og safna upplýsingum. Ljósmynd/PK

 En nú er Core R8 fjölskylda af einhendum og fáanleg í öllum hefðbundnum línuþyngdum.

Fer tími í hverja og eina útgáfu eða varst klár með þetta eftir að hafa fullkomnað
silungastöngina?

„Það fer óhemju vinna í hverja útgáfu af stönginni. Ég vinn þetta þannig að ég tek tvær
lykilstærðir og fullvinn þær. Í tilviki Core R8 voru það níu feta stangir, annars vegar fyrir línu
fimm og hins vegar fyrir línu átta. Ég eyddi miklum tíma í að fullkomna þessar tvær útfærslur og veiddi meðal annars með þeim mjög víða til koma svo aftur í verksmiðjuna og gera breytingar. En þegar þær voru farnar að skila því sem ég vildi þá fórum við í hinar
útgáfurnar. Ég tek svo minnstu og léttustu stöngina og ber saman við þá stærstu og fyrir
þyngstu línuna. Maður verður að tryggja að eiginleikarnir í stönginni skili sér í öllum
útgáfum. Í tilviki Core R8 þá er það býsna kraftmikil stöng sem býður upp á mikinn kraft og
sérstaklega hvernig miðju hlutar hennar eru hannaðir. Ég held að flestir sem kynnast þessari
stöng eigi möguleika á að vera betri kastarar.“

Þessi grein birtist áður í blaðinu Veiði XII sem Veiðihornið gefur út. Þetta er tólfta árið sem Veiðihornið gefur út blaðið og er það eitt veglegasta veiðiblað sem kemur út á Íslandi. Blaðið kom út í byrjun júní.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert