Grímur Arnarson, veiðimaður á Selfossi lenti í ævintýri lífs síns neðst í Soginu á veiðisvæðinu Tannastaðir, sem er við ármót Sogsins og Hvítár. Grímur var einn að veiða og kom á veiðistaðinn Hala. Þar tók hann sína Sage tíu feta einhendu og undir fór, venju samkvæmt hjá honum Black Ghost einkrækja. Þetta var um klukkan níu í gærmorgun og veiðifélagar hans frá Þýskalandi urðu að fara heim og gátu ekki nýtt síðasta daginn. Hann var því einn að veiða.
Grímur setti í lax og hann fann strax að þetta var stór fiskur. „Mér leist ekki alveg á blikuna. Ég sá tvisvar í spóluna eftir að fiskurinn hafði tekið svakalegar rokur og hann var kominn einhverja tvö hundruð metra frá mér. Ég var farinn að óttast að ég myndi ekki landa honum fyrr en á Selfossi. Eftir um það bil þriggja kortera viðureign hringdi ég í félaga minn, Sigurð Grétarsson og bað hann að koma og aðstoða mig. Hann rauk af stað og hjálpaði mér svo að taka myndir og mæla laxinn nákvæmlega. Hann stóð 118 sentímetra,“ upplýsti Grímur í samtali við Sporðaköst.
Það er margt merkilegt við þennan fisk. Hann er sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandi á þessari öld og líkast til er þetta einn af tíu stærstu löxum sem veiðst hafa hér á landi og sögur fara af.
Það er merkileg tilviljun að Egill Thorarensen, afi Gríms veiddi 36 punda lax árið 1960, einmitt á Tannastöðum.
Grímur viðurkennir að hafa verið hreinlega á „adrenalínflippi“ í gærdag eftir að hafa landað þessum magnaða fiski. „Það er svo magnað að þessir fiskar skuli enn vera til. Ég tvisvar áður sett í fisk af þessari stærðargráðu og misst þá í bæði skiptin. Annar var á Alviðru í Soginu en hinn á Snæfoksstöðum í Hvítá. Ég átti ekki séns í þá fiska.“
Hann hefur ekki fyrr fengið meters langan fisk á Íslandi en áður hafði fengið 116 sentímetra fisk í ánni Kola í Rússlandi. Grími fannst þessi samt miklu merkilegri. „Í Rússlandi var ég með tvíhendu og þetta gerðist allt í meiri rólegheitum.“
Það var ekki auðvelt að taka góðar myndir af svona stórum fiski en það leynir sér ekki hvers konar skepna þarna var á ferðinni. Hausinn einn og sér er gríðarstór. Aðspurður hvort hann telji þetta Sogs- eða Hvítárfisk svarar hann umsvifalaust. „Hvítárfiskur. Allan daginn. Það leynir sér ekki.“
Sporðaköst óska Grími til hamingju með þennan magnaða fisk.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |