Hvernig á að stilla upp gervigæsum?

Eitt mikilvægasta atriðið þegar farið er í fyrirsát fyrir gæs, …
Eitt mikilvægasta atriðið þegar farið er í fyrirsát fyrir gæs, er hvernig gervigæsunum er stillt upp. Einar Páll Garðarsson hefur áratuga reynslu á því sviði. Hann gefur hér góð ráð út frá sinni reynslu. Ljósmynd/Einar Páll

Hvernig gervigæsum er stillt upp skiptir höfuðmáli þegar farið er í fyrirsát eða gæsaveiði. Einar Páll Garðarsson er reynd gæsaskytta til áratuga og við leituðum í hans smiðju varðandi hvernig hann raðar gæsunum upp til að ná sem bestum árangri. Eitt það fyrsta sem Palli nefndi var að veiðimaður þyrfti að standa klár á úr hvaða átt gæsirnar væru að koma. Best væri að fá fuglana inn á móti sér, frekar en að vera að fá flugið í bakið. Hann sagði fylgsnið sjálft afar mikilvægt. „Fuglinn greinir minnstu hreyfingu mjög langt að og oft á lengra færi en veiðimenn átta sig á. Það er búið að sýna fram á að andfuglar greina hreyfingar á mjög löngu færi og það jafnvel minnstu hreyfingu.“

Þegar kemur að sjálfri uppstillingunni segir Palli mikilvægast að búa til svæði sem virki öruggt fyrir gæsina. Hann segist gera það með því að raða gervigæsunum þannig upp að þær myndi eins konar V eða L laga uppstillingu. Þannig sé útbúið lendingarsvæði sem fuglarnir geti lent á. „Lendingarsvæðið ætti að vera í fimmtán tuttugu metra fjarlægð frá fylgsninu eða felustaðnum. Ef að fuglinn kemur beint á móti þér er gott að vera með uppstillinguna þannig að gervigæsirnar myndi einhvers konar V þannig að þú beinir fuglinum að felustaðnum. Ef fuglinn kemur hægra megin þá getur verið gott hafa uppstillinguna þannig að hún virki L laga og svo öfugt ef fuglarnir koma vinstra megin. Plássið fyrir hana að lenda sé samt í námunda við felustaðinn. Oft þarf að hagræða þessari uppstillingu eftir fyrstu flugin ef gæsirnar eru að koma aðeins öðruvísi inn, en þú áttir von á.“

Þessi teikning sem Heimir Óskarsson vann sýnir hvernig skynsamlegt er …
Þessi teikning sem Heimir Óskarsson vann sýnir hvernig skynsamlegt er að stilla upp gæsunum. Felustaður er merktur á myndina og gæti verið skurður. Best er að hafa vindinn í bakið svo fuglinn lendi upp í vindinn. Ljósmynd/Heimir Óskarsson

„Full body“ gæsir eru málið

Í dag eru komnar svokallaðar „full body“ gervigæsir sem eru margfalt betri en gömlu skeljarnar. Palli mælir hiklaust með slíkum gervigæsum og segir að tólf slíkar virki eins vel og jafnvel þrjátíu af gömlu gerðinni.

Hvað með fjölda gervigæsa? Skiptir fjöldinn máli?

„Já. Fjöldinn skiptir máli en það fer ofurlítið eftir aðstæðum. Í byrjun veiðitíma þegar fuglinn er ekki kominn í stóra hópa og þetta eru meira fjölskyldur þá þarf ekki að vera svo mikið af tálfuglum. En það breytist þegar fuglinn er farinn að þétta sig og hóparnir verða stærri. Þá fer fjöldinn að skipta meira mál. Þess fleiri tálfugla sem þú ert með þess öruggari er gæsin á að koma inn til lendingar.

Megin forsenda þess að fara í fyrirsát er að gæs hafi verið í stykkinu dagana á undan. Það þýðir ekkert að hoppa bara ofan í næsta skurð og setja upp gervigæsir og búast við góðri veiði. Það er það fyrsta til að hafa á hreinu.“

Gerviálftir mikilvægar

Gerviálftir eru mikilvægar segir Palli. Hann kallar þær öryggisfugla í þeirri merkingu að gæsirnar verði öruggari. „Við vitum það að á morgnana þá fljúga endurnar fyrst af stað og svo álftin. Gæsin kemur alla jafna síðust. Mér finnst gott að vera með nokkrar álftir og jafnvel innan um gervigæsirnar. Það er náttúrulega svolítið skrítið ef allt hefur verið með kyrrum kjörum um morguninn að engar álftir séu á svæðinu. Við sjáum þetta svo vel ef við erum að fylgjast með flugi í stykki. Fyrst koma álftirnar og svo fara gæsahóparnir að tínast inn líka. Um leið og kemur styggð að fuglunum þá eru álftirnar farnar. Það má alveg ímynda sér að þegar gæsahópur kemur inn að þær hugsi, hvar eru vinkonur okkar sem eru vanar að vera hérna?“

Hvað ertu þá með margar álftir?

„Ef stillt er upp þrjátíu gervigæsum þá er fínt að vera með tíu álftir í uppstillingunni. Ég vil líka benda mönnum á að álftirnar þurfa ekki að vera stórar. Það er engin þörf á því að kaupa stærstu full body álftir. Það er alveg ágætt að verða sér úti um gamlar grágæsaskeljar og mála þær hvítar og gogginn svartan með smá bleiku í. Við málum þetta með plastmálningu og það dugar í nokkur ár og svo slettum við á þær aftur. Ég hef gert þetta í mörg ár og virkar vel fyrir mig.“

Fluggæsir virka

Hvað með gæsir sem eru á hreyfingu?

„Engin spurning. Vera með þær. Þessar full body gæsir virka þannig að þær eru í flestum tilvikum á teinum og þannig myndast mjög eðlileg hreyfing á þeim. Þær vagga í vindinum og eru mjög raunverulegar. Við félagarnir höfum síðustu ár alltaf verið með fluggæsir í uppstillingunni. Við kannski erum með fimmtán til tuttugu gæsir á vinstri vængnum og annað eins hægra megin og svo erum við með þrjár til fjórar gæsir og fluggæsirnar þar sem við viljum að fuglarnir lendi. Þessar síðasttöldu eru jafnvel mjög nálægt okkur. Undantekningalaust virka fluggæsirnar vel og þá sérstaklega fyrst á morgnana. Þær koma alltaf þar sem fluggæsirnar eru. Eftir klukkutíma eða svo er kominn friður á og mesta flugið búið. Þá er ágætt að taka fluggæsirnar niður eða setja þær á stykkið fyrir aftan þig til að vekja athygli á að þarna séu fuglar.“

Nokkur atriði sem menn kunna að spyrja sig að í byrjun. Hvað með dauðar gæsir sem þegar hafa verið felldar?

„Við notum þær hiklaust og setjum inn á milli gervigæsa. Pössum bara að setja fætur undir búkinn og laga vængi að skrokknum. Við erum svo með teina til að setja undir hausinn og tryggja að þær vikri sem eðlilegastar. Rafsuðuteinar henta vel í þetta.“

En ef að gæs liggur dauð í stykki og annað flug er á leiðinni?

„Það fer aðeins eftir aðstæðum. Ef hún liggur með belginn upp og vængi úti þá hlaupum við strax og lögum hana. Slík gæs virkar fælandi. En þetta þarf að meta í hverju tilviki.“

Flauta og flögg?

„Við notum flöggin til að vekja athygli gæsarinnar. Okkar reynsla er að þau virki mjög vel. Flöggin eru notuð á ákveðinn máta. Byrjum frekar hátt með þau og lækkum þau svo eins og að fugl sé að koma inn til lendingar. Allt er þetta gert til að vekja athygli gæsarinnar á svæðinu og að þarna kunni að vera beit og eitthvað spennandi.

Varðandi flautuna þá skiptir mestu máli að kunna að flauta. Mín ráðlegging er að ef stefna fuglanna er þannig að þeir eru að koma inn þá er nóg að bara flauta lágt og líkja eftir babblinu þeirra þegar þær eru að éta. Ef hópur í fjarska virðist ekki stefna á uppstillinguna er gott að kalla og vekja athygli þeirra á gervigæsunum. Það virkar oft.“

Rétt í lokin er fínt að árétta að uppstilling í V eða L laga uppstillingu má ekki framkvæma of bókstaflega. Ekki raða gæsunum upp í slíka röð. Heildaruppstillingin á að mynda öryggissvæðið sem við viljum fá gæsina í. Með því að búa til autt svæði fyrir hana þá fær hún líka pláss til að lenda innan um gervifuglana og það er tilgangurinn.

Þessi grein birtist áður í blaðinu Veiði XII sem Veiðihornið gefur út. Þetta er tólfta árið sem Veiðihornið gefur út blaðið og er það eitt veglegasta veiðiblað sem kemur út á Íslandi. Blaðið kom út í byrjun júní.

Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Víðidalsá Ragnheiður Þengilsdóttir 14. júlí 14.7.
106 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 8. júlí 8.7.
100 cm Blanda Patrick Devennie 20. júní 20.6.
100 cm Kjarrá Sigurður Smári Gylfason 19. júní 19.6.
Veiðiárið 2023:
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert