Einn þekktasti stórlaxastaður á landinu stóð undir nafni í dag. Hnausastrengur í Vatnsdalsá hefur geymt marga höfðingja í gegnum árin og einn slíkur kom á land í dag. Stefanía Guðmundsdóttir sem kölluð er Stella mætti til veiði í Vatnsdalsá á seinni vaktina í dag. „Þetta var alveg magnað. Ég setti saman og ákvað að setja undir Black Ghost einkrækju og ég var komin niður í miðjan Hnausa þegar þessi líka fiskurinn tók. Þetta var algert tröll,“ sagði Stella í samtali við Sporðaköst.
Viðureignin var snörp og metur Stella að hún hafi verið um tuttugu mínútur með fiskinn. Eftir að búið var að háfa fiskinn áttuðu menn og konur sig á því hversu stór fiskur var þarna á ferðinni. Stella segir að Þorsteinn Geirsson hafi mælt fiskinn og staðfest lengdina 107 sentímetrar. Þetta er stærsti lax sem Vatnsdalsá hefur gefið í sumar og þriðji stærsti laxinn sem fengist hefur til þessa í sumar.
Stærsti lax sem Stella hafði fengið fram til þessa var 85 sentímetra fiskur sem hún veiddi í Rofabakka, en það er vel þekktur veiðistaður í einmitt Vatnsdalsá.
Það er athyglisvert að þetta er annar hundraðkallinn í sumar sem tekur Black Ghost einkrækju. Sá fyrri var á Tannastöðum í Soginu og mældist hann 118 sentímetrar, eins og greint var frá í Sporðaköstum.
Sporðaköst óska Stellu til hamingju með laxinn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |