Viðmið og væntingar eru að breytast

Þúsundasti laxinn í sumar í Selá veiddist nýverið. Það var …
Þúsundasti laxinn í sumar í Selá veiddist nýverið. Það var Erla Sylvía Guðjónsdóttir sem veiddi hann. Honum var sleppt að lokinni viðureign. Ljósmynd/SRI

Í afar erfiðu veiðisumri hafa vissulega verið ljósir punktar þar sem veiðin hefur gengið betur. Einn af þessum ljósu punktum er Vopnafjörðurinn en þar hefur veiðin verið betri en víðast hvar. Sporðaköst leituðu til Gísla Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Six Rivers Iceland sem rekur meðal annars Selá og Hofsá og spurðum hvernig staðan væri.

„Það er þó nokkuð að laxi í ánum, mikið af millistærð og minna af níutíu plús sentímetra fiskum. Laxinn er dreifður, vel dreifður. Gestir okkar hafa almennt verið ánægðir og farið heim glaðir sem skiptir mestu máli. Nýjar veiðireglur og takmörkun á veiðiálagi, fækkun stanga og stytting veiðitíma virðist mælast vel fyrir hjá flestum. En eins og allir vita er erfitt að breyta venjum okkar veiðimanna og það er okkar trú og von að á endanum verði þetta til góðs.

Feðgar losa úr laxi í Hofsá, fyrr í sumar. Þeir …
Feðgar losa úr laxi í Hofsá, fyrr í sumar. Þeir Gísli Ásgeirsson og Óskar Hængur dást að laxinum. Ljósmynd/Gísli Ásgeirsson


Nú má sjá á umfjöllun að vatnsleysið hefur hrjáð margar ár og svo er að einhverju leyti í Vopnafirðinum líka. Hér hefur eiginlega ekki rignt að neinu gagni í marga mánuði, en hér áður var það oftast þannig að ef það var sól fyrir sunnan rigndi hér og svo öfugt en svo hefur ekki verið. En þar sem vatnasvæðin í ánum eru stór hefur vatnsmagn haldist ótrúlega vel,“ upplýsti Gísli.

Í Vopnafirðinum voru menn mjög bjartsýnir fyrir þetta veiðitímabil og allar tölur sem hægt var að horfa til voru jákvæðar. Mikil útganga seiða hefur verið síðustu ár og Gísli og fleiri leyfðu sér að segja að þeir væru mjög bjartsýnir. Innistæða var fyrir bjartsýninni en þó eru blikur á lofti að mati Gísla.

„Við getum auðvitað ekki annað en glaðst yfir árangrinum en gleðin er blönduð áhyggjum yfir stöðu mála. Veiðin er góð en ekki meira en meðaltal, hér eru engin met slegin og það þarf að hafa fyrir veiðinni. Svo virðist sem viðmið okkar, og það sem við sættum okkur við sem veiðimenn sé á niðurleið. Við sættum okkur við ástand og tölur sem við hefðum talið lélegar fyrir einhverjum árum síðan og vegna þess að það skiptir svo miklu máli fyrir marga að allt gangi vel þá erum við farin að ræða hversu gott þetta verði á næsta ári. Það er mikilvægt að horfa á tölurnar og staðreyndir, sérstaklega þegar vá steðjar að úr öllum áttum eða eins og talsmaður fiskeldisins skrifaði „það er aðeins eldi á austfjörðum og vestfjörðum, allt hitt er ósnert.““

Eins og staðan er núna þá er Selá komin í 1.080 laxa og er sú náttúrulega laxveiðiá sem gefið hefur flesta laxa. Hofsá er í 925 löxum og í hópi þeirra áa sem gefið hafa bestu veiðina. Rétt er að hafa í huga að í Selá og Hofsá er veitt á sex stangir sem er mun minni stangafjöldi en í flestum ánum sem annars prýða efstu sæti listans yfir ár sem gefið hafa flesta laxa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert