„Verður að stöðva þessa villimennsku“

Laxinn sem veiddist í Smiðshyl í Vatnsdalsá í gær. Bakugginn …
Laxinn sem veiddist í Smiðshyl í Vatnsdalsá í gær. Bakugginn er nánast horfinn og bendir það sterklega til þess að hann eigi rætur sínar að rekja til sjókvíaeldis. Ljósmynd/BKR

Tveir laxar sem hafa útlit eldislaxa veiddust í Vatnsdalsá í gær. Fleiri grunsamlegir fiskar hafa sést í ánni. Einnig eru uppi grunsemdir um fleiri eldisfiska í Víðidalsá. Einn slíkur hefur veiðst og er hann kominn til rannsóknar hjá Hafrannsóknastofnun. Fleiri fiskar hafa sést í Víðidalsá sem þykja hafa útlit eldislaxa.

Fiskarnir tveir sem veiddust í Vatnsdalsá í gær voru báðir bjartir og nýlega komnir úr sjó. Annar fiskurinn var „loðinn af lús“ að sögn Björns K. Rúnarssonar, leigutaka. Sagðist hann aldrei hafa séð svo lúsugan fisk áður. Athygli vekur að annar fiskurinn veiddist í Smiðshyl sem er um 35 til 40 kílómetra frá sjó.

„Mér er svo fullkomlega misboðið. Þegar fyrsti laxinn veiddist fékk maður sjokk. Nú þegar tveir svona fiskar veiðast sama daginn verður maður hreinlega reiður. Við vöndum okkur alla daga í umgengni við ána. Tínum upp allt rusl sem til fellur og skiljum ekkert eftir nema sporin okkar. Svo fáum við þessa fiska upp í ána af því að einhverjir Norðmenn hafa fengið grænt ljós frá stjórnvöldum til níðast á og nauðga íslenskri náttúru og græða peninga. Það er staglast á því við þjóðina að þetta snúist um að auka lífsgæði á Vestfjörðum og halda stöðum í byggð. En hvað með allar þær sveitir sem lifa á þessari auðlind sem villti laxinn okkar er?

Lax númer tvö í gær úr Vatnsdal sem ber sterk …
Lax númer tvö í gær úr Vatnsdal sem ber sterk einkenni eldisfisks. Laxinn var loðinn af lús og segist Björn K. Rúnarsson aldrei hafa séð svo lúsugan fisk. Laxalús er viðvarandi vandamál í eldi. Ljósmynd/BKR

Það varð allt vitlaust þegar átti að virkja við Eyjabakka og einhver fattaði að hreindýr þyrftu að hlaupa lengri leið en þau voru vön. Íslenski laxastofninn má hins vegar fara fjandans til í boði norskra auðmanna og nokkurra íslenskra viðhengja þeirra sem eiga það eitt sameiginlegt að auðgast ótakmarkað með því að ganga að villta laxinum okkar dauðum. Það verður að stöðva þessa villimennsku sem sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi er,“ sagði Björn leigutaki í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.

Þetta er þriðji laxinn sem veiðist í Vatnsdalsá sem ber …
Þetta er þriðji laxinn sem veiðist í Vatnsdalsá sem ber sterk eldiseinkenni. Fleiri hafa sést. Ljósmynd/BKR

Hart er tekist á um þetta mál á báðum vígstöðvum, þar sem eldismenn fullyrða að lítil hætta sé á erfðamengun þó að slysasleppingar verði. Því hafa laxveiðimenn mótmælt harðlega og segja svörtustu sviðsmyndina vera orðna að veruleika.

Hafrannsóknastofnun hefur fiska með eldisútlit til greiningar og verður forvitnilegt að sjá hvaðan þeir eru ættaðir.

Fyllsta ástæða er til að biðja veiðimenn um að vera vel á varðbergi og sleppa ekki þeim fiskum sem kunna að vera ættaðir úr eldi. Þau atriði sem vert er að líta til eru: Fiskurinn bjartur og lúsugur. Á bilinu sex til sjö kíló. Sporður og uggar tættir og skemmdir.

Slíka fiska þarf að tilkynna til leigutaka og Hafrannsóknastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert