Feðgarnir Alexander Þór Sindrason og pabbi hans, Sindri Þór Kristjánsson áttu saman magnaða og allt að því dramatíska stórlaxastund í Elliðaánum í gær. Þeir voru staddir í Símastreng, þar sem Alexander Þór hafði fyrir tveimur árum veitt sinn stærsta lax á ævinni. Það var 86 sentímetra hængur sem tók fluguna Green But.
Nú tveimur árum seinna mættu þeir aftur í Elliðaárnar og báðir rifjuðu upp ævintýrið frá 2021. Þeir byrjuðu á Hrauninu og svo barst leikurinn í Símastreng. „Viltu ekki byrja með Green But?“ Spurði Sindri Þór son sinn. Það þurfti svo sem ekki mikið að ræða það og fljótlega sveif sú græna út í Símastreng. Ekkert gerðist.
Sindri Þór er vanur leiðsögumaður og hefur meðal annars verið í leiðsögn í Stóru–Laxá í sumar. Hann stakk upp á við Alexander Þór að setja undir klassíska rauða Frances. Hún fékk að svífa. „Það tók fiskur hjá honum í fyrsta kasti. Hann rauk strax af stað ég sá að þetta var svakalegur fiskur. Ég vildi ekki stressa strákinn um of þannig að ég sagði bara við hann að þetta væri stór fiskur og nú þyrfti að halda einbeitingu."
Eftir um það bil korters viðureign sá Sindri Þór loksins allan fiskinn og taldi að þetta væri um níutíu sentímetra fiskur. Eftir um það bil hálftíma rauk fiskurinn af stað niður úr öllu. „Ég fattaði á þeim tímapunkti að ég var ekki með laxaháfinn minn. Hafði gleymt honum í leiðsögn í Stóru–Laxá. Ég fann silungaháf í bílnum og hefði örugglega getað háfað hann mun fyrr ef ég hefði haft laxaháf.“
Viðureignin stóð í klukkutíma og hafði leikurinn þá borist langt niður eftir á og var þessum laxi landað á Hrauninu. „Þetta var mikil gleðistund og bara geggjað að fá mynd af stráknum með þennan frábæra fisk. Þetta nefnilega leit ekkert allt of vel út á tímabili. Ég með silungaháfinn og þorði ekkert að ráðast á hann með þeirri græju.“
Alexander Þór var með stöng fyrir línu sex og miðuðust átökin því við þá staðreynd. Strákurinn var alveg búinn á því að sögn Sindra Þórs og við það að fá krampa í handlegginn af átökunum. „Hann var svakalega ánægður en mjög þreyttur og pabbi var mjög stoltur. Ég var alveg við það að fella tár þegar þetta kláraðist og hægt var að taka myndina.“
Alexander Þór hefur landað fjölmörgum fiskum þrátt fyrir ungan aldur. Hann fékk sinn fyrsta flugulax ellefu ára gamall og var það í Elliðaánum í Hundasteinum. Síðan þá hefur hann veitt í Elliðaánum og oft farið með í veiði í Stóru–Laxá.
Þið hafið ekki tekið hreistursýni af henni?
„Nei. Ég var stressaður með að ná að sleppa henni og vildi hafa hana sem minnst upp úr vatni. En auðvitað hefði maður átt að gera það og það hefði verið gaman að sjá hvort hún hefur hrygnt áður. En maður hugsaði ekki út í það í stressinu,“ viðurkenndi Sindri Þór.
Samkvæmt rafrænu veiðibókinni Angling iQ er þetta stærsti laxinn í Elliðaánum í sumar. Og að er enn merkilegra að svo stór hrygna veiðist í borgarperlunni. Nú hafa veiðst í sumar 559 laxar í Elliðaánum. Þrír hafa náð 86 sentímetrum en fiskurinn hans Alexander Þórs er sá stærsti sem skráður hefur verið til þessa. Veiðin í fyrra var töluvert betri í Elliðaánum en á 7. september 20222 var búið að bóka þar 757 laxa eða tvö hundruð löxum meira en í ár. Það munar um það.
Sporðaköst óska Alexander Þór til hamingju með stórlaxinn úr Símastreng.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |