„Þetta er galið“ – Háfuðu níu eldislaxa

Níu laxar voru háfaðir í hádeginu úr teljarahólfinu í laxastiganum …
Níu laxar voru háfaðir í hádeginu úr teljarahólfinu í laxastiganum í Blöndu í hádeginu. Þeir er allir af eldisuppruna. Galið er orðið sem Guðmundur Haukur notaði. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

Níu eldislaxar voru háfaðir upp úr laxastiganum í Blöndu í hádeginu. Tugir laxa sem upprunnir eru úr sjókvíaeldi eru nú staðfestir í ám á Vesturhluta landsins og Vestfjörðum. Óttast menn sem til þekkja að fjöldi þeirra kunni að hlaupa á hundruðum þegar upp verður staðið.

Einungis ein ástæða er fyrir komu þeirra í árnar og hún er sú að laxinn er frjór og það er í eðli hans að leita í ferskvatn til að hrygna. Og gildir þá einu þó að hann sé af norskum uppruna eins og þeir laxar eru sem ryðjast inn í íslenskar laxveiðiár. 

„Þetta er galið. Alveg galið. Við háfuðum níu svona laxa úr teljarahólfinu í laxastiganum í Blöndu. Ég er búinn að vera að fylgjast með þessu frá því á laugardaginn. Þá gekk ég frá laxastiganum eins og við gerum á haustin. Ég var búinn að háfa tvo svona laxa og þá kom upp sú hugmynd að hreinlega ganga þannig frá stiganum að fiskur kæmist ekki upp.“

Hér talar varaformaður Veiðifélags Blöndu og Svartár og forseti sveitastjórnar Húnabyggðar, Guðmundur Haukur Jakobsson. Hann minnkaði rennslið það mikið með grjóti að nægt vatn flæðir um stigann en fiskur kemst ekki í gegn. Í samráði við formann veiðifélagsins og fiskifræðing árinnar var ákveðið að gera þetta með þessum hætti. 

Skyggni í Blöndu er nánast ekkert og Guðmundur Haukur líkti …
Skyggni í Blöndu er nánast ekkert og Guðmundur Haukur líkti þessu við að taka upp kartöflur. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

„Þetta var bara súrrealískt“

„Við urðum einskis varir á sunnudag en á mánudag var mættur einn villtur smálax og við settum hann upp fyrir og ég bað hann um að fara upp í Svartá því menn eru enn að veiða þar. Ég komst svo ekki í gær til að skoða þetta en í morgun hringdi í mig fiskifræðingurinn hjá Hafró og biður mig um að hreinsa aðeins betur myndavélateljarann. Hann sagðist hafa séð einhverja skugga og það gætu hreinlega verið komnir fiskar í hólfið. Ég skellti mér upp eftir í hádeginu og tók mág minn með mér og hann var bara á strigaskónum. Ég rek mig bara strax í fisk þó svo að ég sæi ekki neitt. Við háfuðum annan og þriðja og fjórða og svo komu tveir og þetta var bara súrrealískt. Við enduðum með að ná níu löxum upp úr þessu og þeir voru allir steyptir í sama mót. Sex til sjö kíló og bæði hængar og hrygnur. Sporðurinn er öðruvísi. Veiðiugginn á sumum er risastór og uggar rifnir og sumir klesstir á trýninu.“

Upplýsti Guðmundur Haukur. Hann mun áfram fylgjast með stöðunni en honum þótti alveg nóg um.

Búið að skola laxana. Guðni Guðbergsson átti leið um og …
Búið að skola laxana. Guðni Guðbergsson átti leið um og tók þá með sér í borgina til greiningar. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

Tók með sér ellefu eldislaxa til greiningar

Fiskarnir voru drepnir og vildi svo vel til að Guðni Guðbergsson, sviðstjóri Hafrannsóknastofnunar, var á suðurleið og ætlaði hann að taka með sér þá tvo laxa sem Guðmundur Haukur háfaði úr stiganum um helgina. Niðurstaðan varð sú að hann tók með sér ellefu eldislaxa til greiningar.

Sérfróðir menn sem Sporðaköst hafa rætt við í dag óttast að hundruð þessara laxa séu í sjónum vestan við landið. Hvort og hvenær þeir halda í ferskvatn er ekki hægt að svara en það þarf ekki stórar tölur til að valda óbætanlegu tjóni á villtu stofnunum í þeim ám þar sem eldislaxinn hefur gert innrás.

Það þarf ekki sérfræðing til að átta sig á að …
Það þarf ekki sérfræðing til að átta sig á að þetta er fiskur ættaður úr eldi. Bakugginn afmyndaður og hreisturgerðin grófari en við þekkjum. Ljósmynd/Guðmundur Haukur

Eldislaxar verið að veiðast í öðrum ám

Guðmundur Haukur var í dag að taka upp kartöflur og sagði hann samlíkingu dagsins vera við kartöflugarðinn þar sem koma upp sex til tólf undan hverju grasi, eins og að háfa eldislaxa úr laxastiganum.

Aðspurður hvort þetta mál myndi rata inn á borð sveitarstjórnar sagði hann að það kæmi í ljóst en næsti fundur er fyrirhugaður eftir helgi.

Talið er að um 750 villtir laxar hafi gengið í gegnum stiga og teljara í Blöndu í sumar. Miðað við hversu margir eldislaxar eru staðfestir á vatnasvæðinu er auðvelt að átta sig á hversu mikil hættan er á erfðablöndun. Ómögulegt er að segja hversu margir eldislaxar eru þegar gengnir í Blöndu en einn slíkur veiddist í síðustu viku í Svartá.

Eldislaxar hafa verið veiðast í öðrum ám í nágrenninu og síðast í hádeginu veiddist einn slíkur í Vatnsdalsá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert